Óprúttnir aðilar hafa á undanförnum vikum bókstaflega gengið í skrokk á Skessunni í hellinum, einum vinsælasta áfangastað barna í Reykjanesbæ. Tennur hafa verið brotnar og nú síðast var rifinn af fingur. Hellinum hefur þó ekki verið lokað því vaskir og handlagnir starfsmenn Reykjaneshafna hafa verið snöggir til og „læknað“ Skessuna.
Mikið hefur verið rætt um málið á samfélagsmiðlum, meðal annars í hópi íbúa í Reykjanesbæ á Facebook, en þar hefur einn af starfsmönnum Reykjaneshafna birt ljósmyndir af skemmdarverkunum. „Skessan í Hellinum er skemmtilegur staður fyrir börn, fullorðna og ferðamenn af öllum þjóðernum. En einhverjir hafa unun af því að skemma Frúna. Við starfsmenn hafnarinnar höfum gert við tábrot, fingurbrot, skipt um læri á frúnni og nú í morgun voru það tannviðgerðir. Það er von okkar að þessu linni og frúin fái að vera í friði,“ sagði einn af starfsmönnum Reykjaneshafna þegar skemmdir voru unnar á Skessunni í júní.
Athugasemdir