„Fjölbreytt rekstrarform“ og „öflug samkeppni“ í heilbrigðisþjónustu er á meðal þess sem er boðað í stjórnmálaályktun sem samþykkt var á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í gær. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, fullyrti jafnframt í leiðtogaumræðunum á RÚV síðasta fimmtudag að það væri „óraunhæft að tala fyrir algerlega gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi“, enda þyrfti að tryggja aðgangsstýringu að kerfinu.
Áherslur Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum eru ólíkar þeim sem kynntar voru á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem einnig var haldinn í gær. Fram kom að Samfylkingin vildi stefna að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu, en slíkt kynni á endanum að kosta ríkissjóð rúma 30 milljarða á ári. Telur Oddný G. Harðardóttir, formaður flokksins, að unnt sé að fjármagna þetta með uppboði aflaheimilda, hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu og upptöku raforkugjalds á stóriðju.
Þótt Sjálfstæðisflokkurinn stefni ekki að gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi kemur skýrt fram í stjórnmálaályktun flokksráðfundar að „lækka þurfi greiðsluþátttöku sjúklinga enn frekar með því að lækka hámarksgreiðslur sjúklingar bæði í lyfjagreiðslukerfi og greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustu, sem og kostnaði við notkun hjálpartækja“. Auk þess sé brýnt að Sjúkratryggingar Íslands taki aukinn þátt í ferðakostnaði sjúklinga.
„Efnahagur fólks á aldrei að ráða aðgengi að heilbrigðisþjónustu á Íslandi,“ sagði Bjarni Benediktsson í leiðtogaumræðunum og lagði einkum áherslu á að dregið yrði úr greiðsluþátttöku langveikra og öryrkja. „Ég held hins vegar að það sé óraunhæft að tala fyrir algerlega gjaldfrjálsu heibrigðiskerfi vegna þess að þá óttast ég að við munum missa alla aðgangsstýringu að kerfinu og það er reynsla annarra þjóða, það er í samræmi við ráðleggingar alþjóðlegra sérfræðinga um þessi efni en það þýðir ekki að gjaldtakan eða kostnaðarhlutdeild sjúklinga eigi að vera einhvers konar aðgangshindrun,“ sagði Bjarni.
Athugasemdir