Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar og Ásmundur Einar Daðason þingflokksformaður studdu öll frumvarpið til laga um opinber skjalasöfn sem festi 110 ára regluna svonefndu í sessi.
Eyjan greindi frá því í gær að þingflokkur framsóknarmanna hefði ákveðið að leggja fram frumvarp sem miðar að því að fella regluna úr gildi. Er fullyrt í frétt vefmiðilsins að undir regluna heyri „gögn er varða uppgjör á þrotabúi föllnu bankanna“ en hið sama kemur fram á vef Framsóknarflokksins. Hið rétta er, að því er fram kemur í svari mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur frá því í fyrra að reglunni hefur aldrei verið beitt.
Um er að ræða sérstaka undantekningarreglu sem hljóðar svo: „Þegar sérstaklega stendur á getur opinbert skjalasafn ákveðið að synja um aðgang að skjali sem er yngra en 110 ára, svo sem þegar það hefur að geyma upplýsingar um einkamálefni einstaklings sem enn er á lífi eða um almannahagsmuni er að ræða.“
Athugasemdir