Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra lýsti því yfir á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um helgina að Ísland hefði skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent fyrir árið 2030.
Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra hafnar því hins vegar í viðtali við RÚV að tekin hafi verið endanleg ákvörðun um hve mikið Ísland muni draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Þá segir Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, í samtali við Mbl.is að Sigmundur hafi ekki meint að Ísland muni draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent heldur hafi hann verið að vísa til markmiða Evrópusambandsríkjanna um að heildarminnkun losunarinnar verði 40 prósent fyrir árið 2030. Ísland muni taka við „sanngjörnu hlutfalli“ af þessari heildarminnkun.
Í ræðu sinni á leiðtogafundinum sagði Sigmundur Davíð orðrétt að Ísland hefði „nýlega heitið því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent fyrir árið 2030“. Engir fyrirvarar voru gerðir né minnst á að verið væri að vísa til þátttöku í aðgerðum til að stuðla að heildarminnkun útblásturs frá Evrópuríkjum.
Athugasemdir