Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, bregst harkalega við ásökunum Viðskiptablaðsins um að Oddný Harðardóttir, þingkona Samfylkingarinnar, hafi fengið ráðherrastól í tíð vinstristjórnarinnar að launum fyrir að styðja málshöfðun á hendur Geir H. Haarde.
„Það er opinbert leyndarmál innan Samfylkingarinnar að Oddný fékk á sínum tíma ráðherrastól að launum fyrir að styðja ákærurnar á hendur Geir H. Haarde í landsdómsmálinu og þar stóð hún vissulega sína plikt,“ segir í nafnlausum ritstjórnarpistli blaðsins sem birtist á vefnum í gær.
Jóhanna gerir athugasemd við skrifin á Facebook og segir þau dylgjur og lygar. Viðskiptablaðið þurfi kúrs í jafnréttismálum, enda ólíklegt að blaðið hefði skrifað með sama hætti um karlmenn.
„Eru engin takmörk fyrir því hversu langt sumir fjölmiðlar ganga í dylgjum og lygi? Óþverrinn í Viðskiptablaðinu nær hæstu hæðum í dag,“ skrifar Jóhanna.
„Ég valdi Oddnýju í embættið af því hún er afburða skörp kona með mikla hæfileika til að gegna starfi fjármálaráðherra. Viðskiptablaðið á að biðja Oddnýju afsökunar á þessum dylgjum og fá um leið kúrs í jafnréttismálum. Mér er til efs að Viðskiptablaðið hefði boðið körlum upp á svona endemis rugl.“
Benedikt Jóhannesson, núverandi fjármála- og efnahagsráðherra, leggur orð í belg og segir að í fjármálaráðuneytinu sé fólk á einu máli um Oddný hafi vandað til verka þegar hún var ráðherra.
„Ég þurfti á sínum tíma að eiga lítils háttar samskipti við Oddnýju Harðardóttur sem fjármálaráðherra og hún kom mér fyrir sjónir sem íhugull stjórnmálamaður. Í ráðuneytinu ljúka allir upp einum rómi um að Oddný hafi sett sig vel inn í mál og unnið af stakri prýði. Allir eiga að njóta sannmælis, hvar í flokki sem þeir standa,“ skrifar hann.
Athugasemdir