Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa „keypt sér sósíalískar sauðargærur á afslætti“ fyrir komandi þingkosningar.
Þetta kom fram í ræðu hennar á flokksráðsfundi sem fram fór fyrir helgi. Sagði hún að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hefði vanrækt uppbyggingu innviða og fjársvelt heilbrigðiskerfið.
„Í góðærinu fyrir hrun voru það sömu flokkar og nú sem vanræktu heilbrigðiskerfið með hörmulegum afleiðingum. Ríkisstjórnin virðist staðráðin í að endurtaka sömu mistök: Að fjársvelta heilbrigðiskerfið í góðæri. Markmiðið kannski það að fá fólk til að vantreysta hinu opinbera kerfi, skapa gerviþörf fyrir einkarekstur,“ sagði Katrín.
„Nú keppast ráðherrar og þingmenn hver um annan þveran að lofa bót og betrun í heilbrigðismálum, í málefnum aldraðra og öryrkja, menntamálum, húsnæðismálum og svo mætti lengi telja. Sannarlega líta þeir betur út í þessari gæru en í þeim auðmannafötum sem við höfum hingað til séð. En hvað er bak við gæruna?“ spurði Katrín og rifjaði upp að sitjandi ríkisstjórn ætlaði í fyrstu fjárlögum sínum að leggja komugjöld á sjúklinga en hætti við í kjölfar mikillar andstöðu. Auk þess hefðu stjórnarliðar hefðu ítrekað fellt tillögur stjórnarandstöðuflokkanna um kjarabætur fyrir aldraða og öryrkja. „Hvaða gildi eru þetta önnur en auðþekkt hægristefna þar sem ofurkapp hefur verið lagt á að lækka skatta og skorið niður á móti?“
Þá fullyrti Katrín að ríkisstjórnin hefði glutrað niður tækifærum á kjörtímabilinu. „Hún hefur einbeitt sér að því að lækka skatta og gjöld á þá ríkustu en hún hefur vanrækt uppbyggingu innviða, hvort sem er í heilbrigðisþjónustu, menntun, samgöngum, fjarskiptum eða öðru. Hún hefur sólundað opinberu fé í skuldaleiðréttingu sem breytti litlu fyrir raunverulegan efnahag heimilanna og hefur reynst illa lág- og millitekjufólki sem allt í einu áttar sig á að vaxta- og barnabætur hafa verið skertar á móti. Hún hefur látið breytingar á stjórnarskránni reka á reiðanum, hún hefur lítið frumkvæði sýnt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Og hún hefur svo sannarlega glatað niður tækifærinu til að byggja upp traust almennings á stjórnmálunum. Það gufaði upp í vor þegar í ljós kom að ráðherrar ríkistjórnarinnar búa ekki í sama hagkerfi og við hin.“
Sagði Katrín að heilbrigðiskerfið hefði verið fjársvelt í heilan aldarfjórðung og um leið hefði greiðsluþátttaka almennings aukist jafnt og þétt. „Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa grafið undan heilbrigðisþjónustu hins opinbera og aukið einkarekstur í heilbrigðiskerfinu,“ sagði hún og benti á að hlutfall heilbrigðisútgjalda af vergri landsframleiðslu hefði dregist saman.
Athugasemdir