Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði sömu setninguna alls 7 sinnum í umræðum um Wintris-málið svonefnda í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Að lokum stöðvaði þáttastjórnandi hann og sagði: „Þetta er í þriðja skiptið sem þú segir þetta. Þú verður að vera með fleiri línur, þetta gengur ekki.“
Aðeins smávægilegar orðalagsbreytingar mátti greina í máli þingflokksformannsins þegar hann endurtók sex sinnum þá fullyrðingu að það lægi ljóst fyrir að forsætisráðherrahjónin, þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Sigurlaug Pálsdóttir, hefðu greitt skatta af eignum sínum á Bresku jómfrúareyjunum. Stundin tók saman ummæli Ásmundar:
1. „Það hafa verið greiddir fullir skattar af þessu.“
2. „Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að það liggi yfirlýsingar fyrir um að það hafi verið greiddir skattar.“
3. „En það sem að liggur alveg ljóst fyrir er að það hafa verið greiddir skattar af þessu.“
4. „Það liggur ljóst fyrir að það hafa verið greiddir skattar af þessum fjárhæðum.“
5. „Það liggur ljóst fyrir yfirlýsingar frá þeirra endurskoðunarfyrirtækjum að það hafa verið greiddir skattar af þessu og það er alveg skýrt.“
6. „Það liggur algjörlega ljóst fyrir að skattar hafa verið greiddir af þessu og það er stóra málið.“
7. „Það liggur algerlega skýrt fyrir af hálfu hans að hann hefur sagt það og hans endurskoðendur, hans endurskoðendur hafa sagt það alveg skýrt að það hafi verið greiddir skattar.“
Í þættinum sagði Ásmundur einnig eftirfarandi:
„Stóra málið í þessu er það að menn hafi greitt skatta og skyldur af þessu sem þarna um ræðir.“
„Stóra málið í öllu þessu hér er að skattar séu greiddir hér á landi og ég hygg að það hafi ekkert komið upp annað í málefnum forsætisráðherra en að það hafi verið gert.“
„Forsætisráðherra hefur hins vegar sagt að hann hafi greitt sína skatta á Íslandi og ég hef enga ástæðu til að rengja það að svo sé.“
„Stóra málið í þessu er, og það hefur komið hérna fram, er hvort að menn hafi verið að greiða skatta af eignum sem eru í félögum erlendis.“
Þegar stefndi í að Ásmundur endurtæki sig enn einu sinni gafst Einar Þorsteinsson, þáttastjórnandi Vikulokanna, upp. „Þú ert búinn að segja þetta þrisvar sinnum,“ sagði hann. „Þetta er í þriðja skiptið sem þú segir þetta. Þú verður að vera með fleiri línur, þetta gengur ekki.“
Eins og fram kemur hér að ofan hafði Ásmundur þó sagt línuna mun oftar en þrisvar sinnum.
Ljóst er jafnframt að fullyrðing Ásmundar stenst ekki fyllilega skoðun. Eins og fram kom á fundi stjórnarandstöðunnar með skattrannsóknarstjóra í gær hafa skattayfirvöld engin úrræði til að sannreyna þær upplýsingar sem eigendur aflandsfélaga gefa íslenskum skattayfirvöldum. Þá hefur Kjarninn greint frá því að forsætisráðherrahjónin svari engu um hvort sérstöku CFC framtali vegna aflandsfélagsins Wintris hafi verið skilað.
Skemmst er að minnast þess að fyrr á árinu var einn af forsetaframbjóðendum Repúblikana, Marco Rubio, staðinn að því að segja fjórum sinnum sömu setninguna í kappræðum. „Let's dispel with this fiction that Barack Obama doesn't know what he's doing. He knows exactly what he's doing,“ sagði Rubio aftur og aftur. Í kjölfarið var hann hafður að háði og spotti í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Þótti atvikið draga fram með skemmtilegum hætti hve varasamt það er fyrir stjórnmálamenn að styðjast eingöngu við talpunkta (e. talking points) í kappræðum.
Uppfært kl. 22:40:
Vefmiðillinn Nútíminn hefur klippt saman og birt upptöku af endurtekningum Ásmundar Einars, sjá hér.
Athugasemdir