Haustið 2013 kynntu upplýsingaverkfræðingurinn Michael A. Osborne og hagfræðingurinn Carl Benedikt Frey við Oxford háskóla rannsóknarniðurstöður sem vöktu gríðarmikla athygli. Fullyrtu þeir að það væri raunverulegu hætta á að um 47 prósent starfa í Bandaríkjunum myndu leggjast af á næstu tuttugu árum. Í skýrslunni „The Future of Employment: How Susceptible Are Jobs to Computerisation?” þar sem fjallað er um þessar niðurstöður kemur fram að störf í flutninga- og þjónustugeiranum séu í mikilli hættu auk þess sem ýmis skrifstofustörf muni eiga undir töluvert högg að sækja.
Osbourne sagði af þessu tilefni að þeir hefðu borið kennsl á nokkra flöskuhálsa sem hefðu gegnt lykilhlutverki í því að hemja sjálfvirknivæðingu starfa fram til þessa. Nú virtist hinsvegar sem nýjungar á gervigreindarsviðinu ættu eftir að ryðja þeim úr vegi með gríðarlegum afleiðingum fyrir samfélögin. Alls sjö hundruð tegundir starfa voru lögð til grundvallar rannsóknarinnar en rannsakendurnir komust meðal annars að því að störf sem krefðust félagslegra eiginleika, svo sem ummönunarstörf, eða störf í hinum skapandi geira væru í mun minni hættu á að sjálvirknivæðast en önnur störf.
Í umfjöllun BBC um rannsóknina er hægt að skoða lista yfir alls 365 störf og sjá hve miklar líkur eru á því að þau verði sjálvirknivæðingunni að bráð. Starfið sem líklegast er að hverfi fyrst af sjónarsviðinu er símsvörun en rannsakendur telja 99 prósent líkur á því að það gerist. Þá eru yfir 95 prósent líkur að störf vélritara, einkaritara, sölufulltrúa, þjónustufulltrúa, bókasafnsstarfsmanna og bílasala falli í hendur róbóta og/eða gervigreindar á komandi misserum. Líkt og bent hefur verið á eru hverfandi líkur, eða undir eitt prósent, á að störf á borð við sálfræðinga og félagsráðgjafa verði sjálfvirknivædd.
Athugasemdir