Það má segja að í ljósi fréttaumfjöllunar seinustu daga um ívilnanir til fiskeldisfélagsins Matorku að heiti ráðstefnu Samtaka verslunnar og þjónustu, þar sem Ragnheiður Elín Árnadóttir mun flytja ávarp, sé heldur óheppilegt. Ráðstefnan, sem fer fram á morgun á Grand Hótel, ber heitið Vel tengdi viðskiptavinurinn.
Líkt og víða hefur komið fram gerði iðnaðar- og viðskiptaráðherra samning við félagið í febrúar sem hljóðaði upp á 400 milljónir króna í formi afslátta af sköttum og opinberum gjöldum. Helstu eigendur félagsins eru vægast sagt vel tengdir. Einar Sveinsson er einn helsti eigandi félagsins en hann er föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra.
Annað félag, sem er í óbeinni eigu Einars Sveinssonar, Thorsil, hefur auk þess fengið mikla ívilnun frá íslenska ríkinu, upp á 770 milljónir króna.
Þá hefur annar stór hluthafi í Matorku gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, Eiríkur Svavarsson lögmaður. Hann gegndi veigamikilu hlutverki í InDefence-hópnum ásamt Jóhannesi Þór Skúlasyni, aðstoðarmanni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Eiríkur veitti atvinnuveganefnd Alþingis einnig umsögn vegna frumvarps um ívilnanir til nýfjárfestinga, án þess að nefna tengsl sín við Matorku.
Athugasemdir