Píratar hafa samþykkt tillögu þess eðlis að flokkurinn verði ekki aðili að ríkisstjórn nema að ráðherrar hennar muni ekki sitja á sama tíma á þingi.
Þetta þýðir að ef Píratar fá kosningar í takt við skoðanakannanir og þurfa að mynda ríkisstjórnarsamstarf við annan flokk þá verði það ófrávíkjanleg krafa að ráðherrar sitji ekki á þingi á sama tíma og þeir gegna ráðherraembætti.
Herbert Snorrason, 2. maður á lista Pírata í Norðvesturkjördæmi í síðustu kosningum og flutningsmaður tillögunnar, segir í samtali við Stundina að ekki þurfi að breyta núverandi stjórnarskrá til að fá þetta atriði fram, um sé að ræða hefð en ekki lög.
„Tillagan sem hér liggur fyrir leggur til að Píratar beiti sér fyrir því að þessari hefð verði breytt áður en ný stjórnarskrá taki gildi. Hún byggist á því að flokkurinn hafni aðkomu að ríkisstjórn þar sem þingmenn eru einnig ráðherrar. Ekki er tekið fram hvort það eigi að gera með því að fá utanþingsráðherra, eða krefjast þess að ráðherrar víki úr sæti á þingi á meðan þeir gegna embættinu. Vel má hugsa sér að í einni ríkisstjórn megi finna hvort tveggja. Með tillögunni er lagt til að gert skuli að algjörri og ófrávíkjanlegri kröfu af hálfu Pírata um stjórnarsamstarf að þessi háttur verði hafður á. Gildir þar einu hvort Píratar væru leiðandi í stjórnarsamstarfi eða ekki. Þó er vert að hafa í huga að orðalagið útilokar ekki að Píratar verji minnihlutastjórn annarra flokka, sem skipuð er þingmönnum, falli,“ segir í rökstuðningi Herberts við tillögunni.
Ætla að beita áhrifum
Herbert væntir þess að Píratar muni geta beitt áhrif sínum til að þetta verði niðurstaðan eftir næstu kosningar. „Það sem ég er leggja til er að Píratar beiti þeim áhrifum sem þeir munu geta haft til svo verði. Ég sé þrjár leiðir í þessu; að ráðherrar segi af sér þingmennsku og hins vegar að þeir stígi af þingi á meðan þeir gegna ráðherraembætti. Muninn á þessu tvennu er fjallað um í frumvarpi stjórnlagaráðs, í ákvæðinu sem er þar er ekki beinlínis tekið fram að það þurfi að vera varanleg afsögn þingmanns, heldur dugi að hún sé tímabundin á meðan hann er ráðherra. Þriðji möguleikinn er sá að það séu ráðnir utanþingsráðherrar. Persónulega tel ég að það sé æskilegast að það sé einhver blanda af þessu,“ segir Herbert.
Hann segist ekki telja að tilkoma fleiri utanþingsráðherra sé ólýðræðisleg.
„Það sem þvælist alltaf fyrir fólki er að ráðherrar eru ekki kjörnir fulltrúar, þeir eru æðstu embættismenn stjórnsýslunnar og starfa í umboði þingsins, í trausti þingsins. Ég sé ekki hvað það er sem gerir það ólýðræðislegra að ráðherrann sé ráðinn til starfa en að allir undirmenn hans séu ráðnir. Lýðræðislegt aðhald að störfum ráðherra á samkvæmt þingræðisreglunni sem gildir, sem hefur að nafninu til verið á Ísland frá 1904, felst ekki í því að ráðherra sé á þingi heldur að þeir starfi í umboði fyrir þingið. Eins og ég tek fram í greinargerðinni þá er mjög varhugavert þegar að forysta þingsins og forusta ríkisstjórnarinnar eru sömu einstaklingarnir. Það eitt og sér að mynda aðskilnað á milli hjálpar til við að greina á milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds,“ segir Herbert.
Krafa um að breyta kerfinu
Herbert hafnar því að þessi samþykkti geti orðið heftandi fyrir mögulegt ríkisstjórnarsamstarf í framtíðinni. „Okkar krafa yrði að samstarfsflokkurinn eða flokkar fylgdu sömu reglu. En heftandi? Ég sé ekki að það sé hlutverk Pírata að taka þátt í nákvæmlega sama gamla kerfinu bara út af því að það er sama gamla kerfið. Ef krafa um að breyta kerfinu leiðir til þess að við getum ekki tekið þátt í kerfinu þá verður bara að hafa það,“ segir Herbert sem sér fram á að bjóða fram krafta sína í Norðvesturkjördæmi fyrir Pírata í komandi Alþingiskosningum.
Fjórir frá aldamótum
Fjórir utanþingsráðherrar hafa verið á Íslandi frá aldarmótum: Jón Sigurðsson, Gylfi Magnússon, Ragna Árnadóttir og Ólöf Nordal. Bæði Gylfi og Ragna voru skipuð ráðherrar í minnihlutastjórn ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttir. Bæði höfðu aldrei tekið þátt í stjórnmálastarfi af viti og þóttu óumdeild á tíma gífurlegar tortryggni í garð stjórnmálamanna eftir efnahagshrun. Þeim var skipt út árið 2010 fyrir pólitíska ráðherra úr liði stjórnarliða. Gylfi sat sem efnahags- og viðskiptaráðherra meðan Ragna var dómsmálaráðherra. Þess má geta samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup voru Íslendingar langánægðastir með störf þeirra tveggja miðað við aðra ráðherra.
Ólöf Nordal er eini utanþingsráðherra núverandi ríkisstjórnar en hún tók við embættinu í kjölfar þess að Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér vegna lekamálsins. Ólöf er þó tvímælalaust ráðherra Sjálfstæðisflokksins enda varaformaður flokksins.
Framsóknarmaðurinn Jón Sigurðsson var jafnframt iðnaðarráðherra utan þings á árunum 2006 til 2007.
Athugasemdir