Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri Kópavogslögreglustöðvar, segir ekki komið á hreint hvort íbúðin hafi verið mannlaust í gær. „Við höfum ekki fengið fullnægjandi skýringar á hvellunum. Við erum enn þá að átta okkur á þessu mál. Tilkynningum um hvellinn hefur fjölgað fremur en fækkað frá því í gær. Við fengum tvær tilkynningar strax og aðra fljótlega. Við fáum fleiri tilkynningar eftir því að leið á daginn og meira segja í morgun, fólk var að hringja og staðfesta að það hafði heyrt hvelli,“ segir Ásgeir. Hann segir það alveg ljóst að eigandi íbúðarinnar hafi ekki verið í íbúðinni. Hann hafi ekki verið færður í gæsluvarðhald. „Það er alveg ljóst að maðurinn sem á þessa íbúð, það er alveg á hreinu að hann var ekki á neinum tímapunkti í þarna í gær,“ segir Ásgeir.
Íbúðin til rannsóknar
Ásgeir segir að umrædd íbúð hafi verið til rannsóknar vegna skothvella þaðan fyrir nokkru.„Í gær fengum við heimild eigandans, þó að hann væri fjarverandi, til að fara inn og kanna íbúðina. Þar leggjum við hald á skotvopn og skotfæri. Við vorum með til rannsóknar mál þar sem við teljum að frá þessari íbúð hafi verið skotið fyrir einhverju síðan og það eru ummerki á vettvangi að skotvopni hafi verið beitt fyrir utan, það er alveg klárt,“ segir hann.
Skoða málið með opnum hug
Ásgeir segir raunar óvíst hvort skotið hafi verið að byssu í gær. „Þó að það hafi verið tilkynnt um hvell, þá heyra lögreglumenn á vettvangi raunverulega aldrei hvell. Þannig að við verðum líka að gera ráð fyrir því að það geti verið eitthvað annað. Það er ekkert útilokað, við erum að skoða þetta mál með verulega opnum huga hver ástæðan er fyrir þessum hvell. Miðað við allar þessar tilkynningar, allt þetta fólk sem upplifir þetta hljóð og telur sig hafa heyrt skothvell. Við erum að reyna að finna út úr því hvað mögulega gæti hafa átt sér stað þarna. Við erum ekki komnir á endapunkt þar, langt í frá,“ segir Ásgeir.
Athugasemdir