Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra vill skoða hvort æskilegt sé að heimila sölu á tilteknum lausasölulyfjum í almennum verslunum á landsbyggðinni og kanna hagkvæmni þess að útvista rekstri gagnagrunna og rafrænni umsýslu lyfjamála til einkaaðila. Þá vill hann efla kostnaðarvitund heilbrigðisstarfsfólks og almennings vegna lyfjakaupa.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í lyfjastefnu ráðherra til næstu fimm ára en þingsályktunartillagan er nú til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis.
Í umsögn Lyfjafræðingafélags Íslands um lyfjastefnuna er fullyrt að hugmyndir um að fela almennum verslunum sölu lyfja sé runnar undan rifjum erlendra lyfjafyrirtækja sem beiti íslenskum umboðsmönnum sínum í hagsmunagæslu hér á landi.
„LFÍ er andvígt því að sala lyfja verði umfram það sem nú er leyfð í almennum verslunum. Þetta er sagt með öryggismál og velferð sjúklinga í huga, ekki viðskiptahagsmuni. Vart hefur verið við umræðu í þjóðfélaginu um að leyfa slíkt. Sala lyfja á að vera í höndum þeirra sem sérfræðiþekkinguna hafa. LFÍ hefur upplýsingar um að sú umræða er runnin undan rifjum erlendra lyfjaframleiðenda sem beita íslenskum umboðsmönnum sínum í þeirri baráttu. LFÍ sér enga ástæðu til að ganga erinda þeirra,“ segir í umsögn félagsins.
„Ef opinberir aðilar hyggjast skoða þessar hugmyndir þá vill LFÍ hvetja til þess að reynsla, þróun, t.d. á Norðurlöndum, verði skoðuð og einnig skilyrði, ábyrgð, eftirlit, leyfisveitingar, þjálfun og leyfisgjöld. Fyrst og fremst er þessi skoðun sett fram með velferð og öryggi sjúklinga í huga. LFÍ bendir á að það þyrfti frekar að skoða umhverfi fyrir lyfjaútibú á landsbyggðinni þar sem dæmi eru um að útibú frá heilsugæslu og lyfjaútibúum í flokki 3 hafi verið lokað vegna þess að það fékkst enginn starfsmaður. Við leysum það ekki með því að flytja dreyfinguna í almennar verslanir sem líka eru að hætta starfsemi úti á landsbyggðinni.“
Lyfjafræðingafélag Íslands geldur jafnframt varhug við hugmyndum um að útvista rekstri lyfjagagnagrunna. „Við erum ekki viss hvort æskilegt sé að útvista rekstri gagnagrunna. Einnig verður að hafa gildistöku nýrra laga um persónuvernd í huga,“ segir í umsögn félagsins.
Athugasemdir