Ólöf Nordal þurfti að hefja krabbameinsmeðferð að nýju um áramótin. Ólöf er innanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðsflokksins. Hún greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni. Þar kemur fram að við reglubundið eftirlit í lok síðasta árs hafi komið í ljós hækkun á æxlisvísum í blóði sem mæla framgang og stöðu krabbameins. Við nánari skoðun hafi komið í ljós smávægilegar breytingar á kviðarholi sem nauðsynlegt var að bregðast strax við.
Ólöf fór fyrst inn á Alþingi árið 2007, sem þingmaður Norðausturkjördæmis. Árið 2009 færði hún sig um set og var þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður frá 2009-2013. Þegar því kjörtímabili lauk lét hún af afskiptum af stjórnmálum, en stafaði sem formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands.
Sumarið 2014 greindi hún fyrst frá því á opinberum vettvangi að hún hefði þurft að láta fjarlægja illkynja æxli úr líkama sínum. „Á örskotsstundu skiptu fyrri plön engu máli, hversdagslegu verkefnin víkja núna fyrir þeirri stærstu áskorun sem ég hef staðið frammi fyrir. Óboðinn gestur hafði nefnilega sest að innra með mér,“ skrifaði Ólöf þá á heimasíðu sinni.
Ólöf sneri fremur skyndilega aftur til stjórnmála þegar hún tók við innanríkisráðuneytinu af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í byrjun síðasta árs, í kjölfar þess að Hanna Birna sagði af sér vegna lekamálsins. Ólöf var síðan kjörin varaformaður Sjálfstæðisflokksins í haust, en hún hafði áður verið varaformaður flokksins á árunum 2010-2013.
Í færslunni sem hún birti fyrr í dag segir hún að það hafi vissulega verið vonbrigði að þurfa að hefja lyfjameðferð að nýju en hún sé bjartsýn og muni eftir sem áður sinna sínum störfum:
„Ég brenn enn fyrir að vinna fyrir almenning og hugsjónir mínar. Þessi þröskuldur sem ég þarf að yfirstíga á næstu vikum breytir engu þar um. Núna stend ég frammi fyrir þessu verkefni og þarf að klára það. Það er engin ástæða til annars en að vera bjartsýn.“
Kæru vinir.Við reglubundið eftirlit í lok síðasta árs kom í ljós að hækkun hafði orðið á svokölluðum æxlisvísum í blóð...
Posted by Ólöf Nordal on Wednesday, January 13, 2016
Athugasemdir