Ólafur Ragnar Grímsson forseti hefur boðað til blaðamannafundar á Bessastöðum síðar í dag. Hann gefur ekki upp efni fundarins.
Í fréttatilkynningu til fjölmiðla er gefið upp númer hjá Örnólfi Thorssyni forsetaritara og sagt að „nánari upplýsingar“ fáist þar. Örnólfur sagðist í samtali við Stundina ekki geta veitt neinar nánari upplýsingar.
Spurður um efni fundarins segir Örnólfur: „Það kemur bara á daginn.“
Aðspurður hvort Ólafur Ragnar væri að fara að bjóða sig fram að nýju til embættis forseta Íslands sagði Örnólfur: „Ég veit það ekki.“
Uppfært: Ólafur Ragnar tilkynnti á fundinum að honum hafi aftur snúist hugur um að hætta sem forseti og muni því bjóða sig fram á ný.
Fimmtán einstaklingar hafa boðað framboð sitt til forseta. Nú síðast steig fram Magnús Ingi Magnússon, betur þekktur sem Maggi í Texasborgurum, og sagðist bjóða frían ostborgara með frönskum fyrir meðmæli, en 1.500 undirskriftir þarf til að öðlast kjörgengi í forsetakosningunum.
Eftirfarandi einstaklingar hafa boðað framboð:
Ari Jósepsson, youtube-listamaður
Andri Snær Magnason rithöfundur
Ástþór Magnússon athafnamaður
Benedikt Kristján Mewes mjólkurfræðingur
Bæring Ólafsson forstjóri
Elísabet Kristín Jökulsdóttir rithöfundur
Guðmundur Franklín Jónsson athafnamaður
Guðrún Margrét Pálsdóttir hjúkrunarfræðingur
Halla Tómasdóttir athafnakona
Heimir Örn Hólmarsson rafmagnstæknifræðingur
Hildur Þórðardóttir, heilari og þjóðfræðingur
Hrannar Pétursson, fyrrverandi upplýsingafulltrúi
Magnús Ingi Magnússon veitingamaður
Sturla Jónsson bílstjóri
Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur
Athugasemdir