Einhverskonar tölvuárás hefur verið framkvæmd á íslensku veffréttasíðuna Nútímann. Ef farið er inn á síðuna kemur upp melding um að síðan innihaldi „malware“ eða spilliforrit. Einyrkinn Atli Fannar Bjarkason sem rekur síðuna vissi ekki af vandamálinu þegar Stundin hafði samband. „Þetta er í Wordpress og það er mikið af sjálfvirkum botum sem ráðast á Wordpress-síður. Þetta gæti verið eitthvað þannig,“ segir Atli Fannar. Spilliforrita meldingin virðist koma upp í sumum tölvum en öðrum ekki. Auk þess kemur meldingin ekki upp ef farið er inn á einstakar fréttir.
Samkvæmt meldingu Google Chrome kemur árásin frá yuumondovaggetafstreden.hecacquisitions.com og sagt að mögulegt sé að hættuleg forrit verði sett upp á tölvu ef farið er inn á vefsíðuna.
Nútíminn hlaut verðlaun fyrir besta vefmiðillinn árið 2014 á Íslensku vefverðlaununum. Miðillinn hóf göngu sína síðastliðið haust en Atli Fannar hefur áður starfað sem fréttastjóri á Fréttablaðinu, ritstjóri Monitors og kosningastjóri Bjartrar framtíðar fyrir Alþingiskosningar 2013.
Athugasemdir