Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur gefið þær skýringar á ósannindum sem fram komu í viðtali við hann á laugardag að honum hafi liðið eins og hann hefði ekki fengið kynningu á skýrslu um umfang aflandseigna Íslendinga fyrr en eftir að þing var farið heim. Sjálfur talaði hann þó um skýrsluna í þingræðu eftir að honum hafði verið kynnt efni hennar.
Bjarni fór með rangt mál þegar hann sagðist hafa fengið umrædda skýrslu til sín í ráðuneytið eftir þingslit. Hið rétta er að skýrslan var afhent fjármála- og efnahagsráðuneytinu þann 13. september þegar um mánuður var eftir af þingstörfum. „Það sem ég átti við, og það sem var í huga mér, var það, þegar þessi skýrsla er kynnt fyrir mér sem er þarna í fyrstu vikunni í október þá standa yfir samningar um þinglok. […] Í huga mínum í gær þá hugsaði ég með mér, mér leið eins og þingið hefði bara verið farið heim, en þetta var kannski ekki nákvæm tímalína hjá mér og ég biðst nú velvirðingar á því,“ sagði hann í viðtali við RÚV á sunnudagskvöld þegar hann baðst velvirðingar á „ónákvæmni“ daginn áður.
Þann 10. október talaði hann hins vegar sjálfur um skýrsluna í ræðu á Alþingi og sagðist brátt mundu skila henni. „Ég mun á næstu dögum sömuleiðis skila skýrslu um þau mál sem ég boðaði í vor varðandi umfang þeirra mála,“ sagði Bjarni orðrétt í svari við óundirbúinni fyrirspurn um aðgerðir gegn skattaundanskotum. Fyrirspyrjandinn var Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar sem nú er að mynda ríkisstjórn með Bjarna.
Píratar rifja upp þessi ummæli Bjarna í harðorðri yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér í gærkvöldi. Bent er á að skýrslunni var skilað til ráðuneytis Bjarna þann 13. september síðastliðinn og ráðherra sérstaklega kynnt efni hennar þann 5. október, rúmri viku áður en þingi var slitið.
„Ráðherra getur vart borið fyrir sig minnisglöpum í þessu samhengi, þar sem hann svaraði sjálfur óundirbúinni fyrirspurn um málið á Alþingi þann 10. október. Þar fullyrti hann að umrædd skýrsla yrði birt á næstu dögum, vitandi vel að skýrslan væri tilbúin til birtingar. Þetta þýðir að ráðherra getur ekki hafa verið það óljóst, aðspurður af fréttastofu Rúv, hvort þingi hafi verið slitið eða ekki þegar skýrslan var tilbúin,“ segir í yfirlýsingu Pírata.
Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar undir forsæti Bjarna Benediktssonar verður kynnt í dag.
Athugasemdir