Innanríkisráðuneytið vildi ekki semja við Erlu Hlynsdóttur blaðakonu um málalok í neinu þeirra mála sem hún höfðaði gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu undanfarin ár. Erla vann öll málin, enda töldust meiðyrðadómar Hæstaréttar ganga í berhögg við ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu.
Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Erlu, var gestur Vikulokanna á Rás 1 í dag. Fram kom í máli hans að þau Erla hefðu nálgast íslenska ríkið og falast eftir samkomulagi, með hliðsjón af því fordæmi sem skapaðist á síðasta áratug síðustu aldar, þegar samið var um ýmis mál sem voru á leiðinni fyrir dómstólinn. Innanríkisráðuneytið hefði hins vegar ekki viljað semja við Erlu og gefið þær skýringar að litlar líkur væru á að mál hennar ynnust.
Gunnar greindi einnig frá því að þau Erla hefðu tvívegis leitað eftir því að innanríkisráðuneytið aðstoðaði við málareksturinn með minniháttar fjárframlögum. „Því var hafnað í öllum tilvikunum á ýmsum forsendum,“ sagði hann.
Fram kom að þau Erla hefðu farið á fund ráðuneytisins í október í fyrra og óskað eftir aðstoð. „Þá fengust þau svör að það væri nú ekki til neinn peningur í ráðuneytinu,“ sagði Gunnar. Helgi Seljan, sem tók viðtalið, spurði hvort þetta hefði ekki verið á sama tíma og verið var að borga lögmannsstofu fyrir ráðgjöf í tengslum við lekamálið. „Ég efast ekki um að til hafi verið peningur, enda er ráðuneytið að kaupa alls kyns lögfræðiráðgjöf. Og ef það var til svona lítill peningur þá hefur hann bara farið í þetta,“ sagði þá Gunnar.
Eins og áður hefur komið fram fól innanríkisráðuneytið lögmannsstofunni LEX að kanna hvort umfjöllun fjölmiðla um lekamálið gæfi tilefni til höfðunar meiðyrðamáls sumarið 2014. Þetta var skömmu áður en Erla Hlynsdóttur falaðist eftir aðstoð vegna málarekstursins fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.
Alls fékk LEX um 860 þúsund krónur frá hinu opinbera. Reikningarnir eru dagsettir 30. apríl og 31. ágúst, en Þórey Vilhjálmsdóttir aðstoðarkona Hönnu Birnu Kristjándóttur fyrrverandi innanríkisráðherra, stefndi tveimur blaðamönnum DV vegna rangrar fullyrðingar í frétt og krafðist hámarksrefsingar yfir þeim í byrjun október sama ár. Þá hafði frumgreiningin á því hvort grundvöllur væri fyrir slíku meiðyrðamáli þegar farið fram á kostnað skattgreiðenda. Eftir því sem Stundin kemst næst er afar óvenjulegt að ríkisstofnanir og ráðuneyti greiði kostnað af slíkri greiningu, enda eru meiðyrðamál einkaréttarlegs eðlis nema þegar ríkissaksóknari höfðar þau á grundvelli almennra hegningarlaga. Áður hefur komið fram að Argus markaðsstofa fékk 2,4 milljónir króna vegna fjölmiðlaráðgjafar í tengslum við lekamálið.
Innanríkisráðuneytið hafnaði því að styðja málarekstur Erlu Hlynsdóttur fyrir Mannréttindadómstól Evrópu á þeim forsendum að engir peningar væru til í ráðuneytinu. Fram kom í máli Gunnars Inga að þau Erla hefðu hins vegar talið mikilvægt að láta reyna á málin fyrir dómstólnum, enda vörðuðu þau allt starfsumhverfi fjölmiðla og ábyrgð blaðamanna.
Hér má hlusta á Vikulokin í heild.
Athugasemdir