„Ég hef ýmsar efasemdir við þessa skýrslu. Það verður að koma í ljós hver framvinda þessa verður,“ segir Valgerður Gunnarsdóttir, alþingismaður Sjálfstæðisflokks og nefndarmaður í Fjárlaganefnd, um samantekt þá sem kennd er við einkavæðingu bankanna hina síðari.
Vigdís Hauksdóttir formaður og Guðlaugur Þór Þórðarson varaformaður nefndarinnar hafa lýst því að samantektin sé skýrsla á ábyrgð meirihluta fjárlaganefndar. Þungar ávirðingar er að finna þar um framgöngu Steingríms J. Sigfússonar og þeirra embættismanna og starfsmanna sem komu að endurreisn bankanna. Skýrt er gefið til kynna að framganga ráðherrans hafi kostað þjóðarbúið mikla fjármuni og að þar hafi hagsmunir kröfuhafa bankanna verið teknir fram fyrir hagsmuni þjóðarinnar. Þegar hafa nokkrir þeirra sem sökum eru bornir mótmælt harðlega og gefið til kynna að þeirri hyggist höfða mál á hendur þeim sem bera ábyrgð á framsetningunni.
Forseti Alþingis upplýsti í gær að ekki hefði verið farið að þingsköpum þegar plaggið var samið og kynnt.
Afsökunarbeiðni Guðlaugs Þórs
Guðlaugur Þór hefur beðist afsökunar á orðalagi í „skýrslunni” og lofar úrbótum. Vigdís hefur ekki beðist afsökunar og ítrekaði á Rás 2 í morgun að í henni væri allt sannleikanum samkvæmt. Varðandi það að plaggið væri ekki skýrsla fullyrti hún að því formsatriði yrði fullnægt í dag þegar hið umdeilda plagg fái málsnúmer.
Innan Sjálfstæðisflokksins eru miklar efasemdir við innihald skýrslunnar. Sumir þingmanna flokksins hafi lýst vinnubrögðunum við skýrsluna sem fúski og að skilningsleysi ráði för.
Valgerður Gunnarsdóttir vill ekkert láta uppi um framvindu málsins í Fjárlaganefnd og hvort hún muni krefjast frávísunar.
„Ég hef ekki gefið út að ég sé aðili að þessari skýrslu“
„Ég hef ekki gefið út að ég sé aðili að þessari skýrslu,“ segir hún.
Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður fjárlaganefndar, lét ekki ná í sig vegna málsins. Innan þess meirihluta sem ber ábyrgð á samantektinni eru Haraldur, Ásmundur Einar Daðason og Páll Jóhann Pálsson.
Páll Jóhann segir að aðspurður að hann taki sína ábyrgð á samantektinni. Hann segist hafa treyst því að Vigdís og Guðlaugur væru að vinna sína vinnu.
„Ég hef stutt fólkið í þessari vinnu. En það á eftir að fara betur yfir textann og lagfæra eitt og annað," segir hann.
Of harðort
Páll Jóhann segist ekki telja að þeir sem komu að endurreisn bankanna séu sekir. Framsetningin og ályktanirnar hafi komið honum á óvart. Þar hefði átt að gæta meiri hófstillingar.
„Ég hafði séð fyrir mér að farið yrði yfir málið. Orðalagið er á köflum óþarflega harkalegt og of mikið um ályktanir. Þarna þarf að lagfæra. Það er nauðsynlegt að fara yfir þessi mál og læra af því,“ segir Páll Jóhann.
Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingar og nefndarmaður í minnihluta fjárlaganefndar, hefur krafið meirihlutann um svör vegna vinnslu skýrslunnar. Þau svör hafa enn ekki borist. Fundarfall varð í nefndinni í gær en til stendur að funda á morgum.
„Ég mun krefjast þess að skýrslan verði dregin til baka og fólk beðið afsökunar. Það er grafalvarlegt þegar nefndir Alþingis eru misnotaðar með þessum hætti," segir Oddný.
Athugasemdir