Hópnauðgunarmál var þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur rétt í þessu, en fimm karlmenn á aldrinum átján til tuttugu og eins ára hafa verið ákærðir vegna atviks í Breiðholti sem átti sér stað 4. maí á síðasta ári. Þeir eru sakaðir um að hafa nauðgað stúlku sem var sextán ára. Stúlkan kærði þá fyrir nauðgun stuttu eftir atvikið. Mennirnir huldu andlit sín þegar þeir gengu út úr dómsal, en réttarhöldin eru lokuð. Allir sakborningarnir fimm neituðu sök þegar málið var þingfest og höfnuðu bótakröfu.
Í ákæru kemur fram að mennirnir héldu stúlkunni nauðugri í svefnherbergi íbúðar í Breiðholti og beittu hana ofbeldi. Þeir eru sagðir hafa notfært sér yfirburðastöðu og aðstöðumun gagnvart stúlkunni. Einn mannanna er ákærður fyrir að hafa tekið nauðgunina upp á myndband. Sá maður kom myndbandinu í dreifingu og sýndi samnemanda stúlkunnar myndbandið í skóla helgina eftir atvikið. Myndbandið er hluti málsgagna. Annar ákærða er sakaður um að hafa fært stúlkuna í annað herbergi og þar sem hann nauðgaði henni. Móðir stúlkunnar krefst ríflega 10 milljóna króna í skaða- og miskabætur af mönnunum. Mennirnir hafa allir neitað sök.
Athugasemdir