Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði rauða bifreið nú fyrir skömmu í Bökkunum í Breiðholti en ekki er vitað hvort það sé í tengslum við leitina að Birnu Brjánsdóttur sem hvarf aðfaranótt laugardags.
Vitni segjast hafa séð þrjár lögreglubifreiðar koma aðvífandi að Bökkunum í Breiðholti fyrir tæpum klukkutíma og umkringja bifreiðina.
Bifreiðinni þykir svipa til þeirrar bifreiðar sem talin er hafa annað hvort keyrt fram hjá Birnu á Laugaveginum aðfararnótt laugardags eða tekið hana upp í. Þetta er þó ekki rauður Kia Rio heldur Toyota Yaris. Þess ber að geta að Birna býr í Breiðholti, er 170 sentímetrar á hæð, um 70 kíló, ljósrauðhærð og með slegið hár.
Óhreyfð og ólöglega lagt
Samkvæmt vitnum sem höfðu samband virtist sem að tveir menn hefðu verið í rauðu bifreiðinni sem var stöðvuð en í myndskeiði sem Stundin hefur undir höndum sjást lögreglumenn leita í bifreiðinni. Ekki er vitað hvort mennirnir tveir hafi verið færðir til yfirheyrslu hjá lögreglu eða sleppt á staðnum en rauða bifreiðin er enn á sama stað, óhreyfð og ólöglega lögð eftir leit lögreglunnar.
Engar upplýsingar hafa fengist frá lögreglu um hvort aðgerðin tengist leitinni eður ei.
Athugasemdir