Mikla óánægju má greina á samfélagsmiðlunum vegna áforma ríkisstjórnarinnar um að setja lög á verkfall BHM og Félags hjúkrunarfræðinga. Fjöldi hjúkrunarfræðinga og heilbrigðisstarfsmanna leggur orð í belg og gagnrýnir stjórnarliða harðlega. Hnakkrifist hefur verið um málið á Alþingi og mun þingfundur líklega standa fram á kvöld.
„Það fer ískaldur hrollur um mig við tilhugsunina um að í sögubókum framtíðarinnar verði greint frá því að örfáum dögum fyrir hátíðarhöld vegna 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hafi ríkisstjórn Íslands sett lög á verkfall stærstu kvennastéttar heilbrigðiskerfisins. Uppræting kynbundins launamunar hefði verið meira viðeigandi afmælisgjöf,“ skrifar Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri hjá Landspítala Háskólasjúkrahúss á Facebook-síðu sinni.
Athugasemdir