Frá því að kærunefnd útlendingamála tók til starfa í lok janúar hefur hún kveðið upp 138 úrskurði og lokið 15 málum með öðrum hætti. Á tímabilinu 1. mars til 24. september fækkaði málum í vinnslu um 34 prósent og meðalaldur slíkra mála lækkaði um 42 prósent. Alls fóru 153 mál farið af borði nefndarinnar.
Þetta eru upplýsingar sem Stundin fékk frá kærunefndinni í seinni hluta septembermánaðar. Eins og fram kom í frétt þann 9. september síðastliðinn er fjallað um reynsluna af hinni nýstofnuðu kærunefnd í greinargerð fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2016.
Greint er frá því að framlög til hælismála verði aukin um 175 milljónir króna, meðal annars vegna „vandkvæða kærunefndar í útlendingamálum við að uppfylla áform um þann málshraða sem að var stefnt með stofnun hennar“. Þá er vísað til þess að komið hafi upp „tímabundnir erfiðleikar í málsmeðferð hælisleitenda sem veldur því að biðtími hælisleitenda eftir niðurstöðu hefur lengst á ný“.
Lægri meðalaldur mála
Samkvæmt tölfræðilegum upplýsingum sem Stundin fékk frá nefndinni hefur hins vegar talsverður árangur náðst frá því að nefndin tók til starfa. 112 mál voru á borði nefndarinnar þegar hún gat byrjað að úrskurða, en flest þeirra höfðu verið framsend frá innanríkisráðuneytinu. Þann 24. september voru 74 mál í vinnslu hjá nefndinni. Um síðustu áramót var meðalaldur mála í vinnslu 296 dagar. Þann 24. september var meðalaldur mála 171 dagur.
„Af þessum tölum má sjá að nefndin hefur haldið sjó og vel það. Það þakka ég fyrst og fremst harðduglegum samverkamönnum mínum og utanaðkomandi nefndarmönnum sem hafa lagt á sig miklu meiri vinnu en gefið var til kynna þegar þeir voru skipaðir,“ segir Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður nefndarinnar, í samtali við Stundina.
Athugasemdir