Íslendingur úthúðar útlendingum, falast eftir vopnum og dáist að fjöldamorðingjanum Anders Behring Breivik á vefnum 4chan. Málið hefur verið tilkynnt til lögreglu, en ummælin birtast á undirsíðunni /pol/ á 4chan þar sem nettröll og rasistar lýsa áhyggjum af velvilja Íslendinga í garð flóttafólks. Undanfarna daga hafa þúsundir manna boðið Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, aðstoð sína við móttöku hælisleitenda vegna neyðarástandsins í Miðjarðarhafi. Taka ber fram að á síðunni grasserar rasismi í bland við gálgahúmor, en /pol/ er vettvangur fyrir skrif sem eiga að ganga í berhögg við „pólitískan rétttrúnað“.
Íslenski notandinn spyr: „Hvernig get ég stofnað borgaraher gegn innflytjendum, strákar?“ Hann segir íslensk stjórnvöld þegar hafa samþykkt að veita 50 flóttamönnum hæli og biður „evrópska bræður“ sína um hjálp við að útvega sér AK-47 riffla. Hann spyr rúmenskan notanda hversu erfitt sé að verða sér út um skotvopn í landinu hans en tekur fram að spurningin sé hýpóþetísk og birtir mynd af Anders Behring Breivik.
Athugasemdir