„Hann er saklaus,“ segir Sara, unnusta hins 42 ára gamla Magna Böðvars Þorvaldssonar sem hefur verið í tíu daga í haldi lögreglunnar í Jacksonville í Flórída vegna gruns um morð.
Um er að ræða fjögurra ára gamalt óleyst morðmál en fórnarlambið, hin 43 ára gamla Sherry Prather, sást síðast yfirgefa knæpu á mótorhjóli ásamt Magna Böðvari. Það var 12. október árið 2012. Í byrjun nóvember sama ár fékk lögreglan upplýsingar um líkamsleifar nálægt Braddock Road í Jacksonville. Það var lík Sherry.
Það tók réttarlækni töluverðan tíma að bera kennsl á Sherry þar sem lík hennar var illa farið vegna ágangs dýra. Bein í hálsi er sagt hafa komið yfirvöldum á sporið hver manneskjan væri en umræddu beini var komið fyrir í læknisaðgerð sem Sherry undirgekkst fyrir mörgum árum en á því var auðkennisnúmer sem hægt var að rekja til hennar. Hún er talin hafa verið myrt með skotvopni.
Vitni fengu þrjú þúsund dollara
Magni Böðvar hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu en lögreglan í Jacksonville yfirheyrði hann skömmu eftir líkfundinn. Lögreglan taldi þá ekki ástæðu til að ætla að Magni Böðvar hafi komið nálægt morðinu en nú, fjórum árum seinna, hefur lögreglan handtekið hann og ákært fyrir annars stigs morð. Ef fundinn sekur gæti Magni Böðvar þurft að dúsa á bakvið lás og slá í þrjátíu ár.
Athugasemdir