„Þetta eru ólíkir flokkar, við erum lengst til vinstri og það eru þarna flokkar sem eru lengst til hægri. Það er því ekki skrýtið að ekki hafi náðst samkomulag.“
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna á dögunum þegar slitnaði upp úr viðræðum fimm flokka um ríkisstjórnarmyndun.
Í eftirmálunum – margvíslegum tilraunum til að útskýra fyrir þjóðinni hverjum var um að kenna og hvers vegna – fékk þessi athyglisverða yfirlýsing ekki þá athygli sem hún verðskuldaði.
Það eru þarna flokkar sem eru lengst til hægri, sagði formaður Vg.
Engum dylst að þarna á Katrín við Viðreisn, en fleirtalan sprettur eflaust af því að Viðreisn og Björt framtíð hafa gengið svo samhent til stjórnarmyndunar að ekki verður séð að skugga beri á.
Fáir myndu þó kalla Bjarta framtíð hægri flokk, hvað þá flokk lengst til hægri.
En er þessi einkunn rétt þegar Viðreisn á í hlut? Flokkurinn sem hefur frá upphafi skilgreint sig fyrst og fremst sem „frjálslyndan“, og eftir kosningar notað „miðjuflokkur“ æ oftar aukreitis, líklega vegna hins óvænta samstarfs við Bjarta framtíð?
Er Viðreisn virkilega hægri flokkur lengst úti á kanti? Hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn?
Svarið við því er bæði já og nei. Samt oftar já, ef litið er á stefnu, málflutning og forsögu helztu forystumanna.
Athugasemdir