Viðreisn lofaði 46 milljarða útgjaldaaukningu í aðdraganda kosninga. Nú segir hins vegar Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, að kröfur annarra flokka um 40 til 50 milljarða útgjaldaaukningu hafi ekki hugnast Viðreisn og að hann efist um að slík útgjöld séu sjálfbær á þessu stigi hagsveiflunnar.
Þetta kom fram í viðtali við hann á Mbl.is í gærkvöldi og í Fréttablaðinu ítrekar hann að Viðreisn vilji ekki stórauka ríkisútgjöld, hvað þá fjármagna þau með skattahækkunum.
Málflutningur Þorsteins heyrir til tíðinda í ljósi þess að hans eigin flokkur lofaði 46 milljarða útgjaldaaukningu í aðdraganda þingkosninga, til heilbrigðis- og velferðarmála, menntamála og fjárfestinga í innviðum. Samkvæmt heimildum Stundarinnar eru þetta nær sömu málaflokkar og hinir flokkarnir sem komu að stjórnarmyndunarviðræðunum vildu að auknum útgjöldum yrði varið til.
Þegar Viðreisn kynnti fjármálaáætlun sína á blaðamannafundi þann 23. október síðastliðinn tilgreindu fulltrúar flokksins ákveðnar upphæðir sem ætti að verja til umræddra málaflokka og notuðu orðið „útgjaldaloforð“. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan var því lofað að ríkisútgjöld ykjust sem þessu nemur á hverju ári á kjörtímabilinu, eða samtals um 184 milljarða á fjórum árum.
Á sama fundi kynnti Viðreisn hugmyndir um fjármögnunarleiðir, einkum útboð aflaheimilda, vaxtalækkun með sölu ríkiseigna og vaxtalækkun með því að koma á fót myntráði. Samkvæmt heimildum Stundarinnar hafði náðst samstaða um það meðal flokkanna í stjórnarmyndunar-viðræðunum að einhvers konar útboði aflaheimilda yrði hrint í framkvæmd. Hins vegar var ekki búið að greiða úr öllum álitamálum um útfærslu og framkvæmd slíkrar leiðar. Þá er almennur vilji fyrir því að halda áfram sölu ríkiseigna og að skuldir ríkisins verði niðurgreiddar til að ná niður vaxtakostnaði ríkisins. Þá var samhljómur í stjórnarmyndunarviðræðunum um að stofnuð yrði nefnd um framtíðarskipan peningamála sem myndi meðal annars kanna möguleikann á því að setja á fót myntráð.
Í Kastljósi í gær sagði Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, að ekki væri rétt túlkun að Viðreisn hefði í raun og veru slitið stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna. Í viðtali Mbl.is við Þorstein Víglundsson, undir yfirskriftinni „Heiðarlegast að slíta viðræðunum“ segir hins vegar: „Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir áherslur á stórfelldar skattahækkanir sem fram hefðu komið í stjórnarmyndunarviðræðum síðustu daga ekki hafa hugnast Viðreisn og því hafi hún talið heiðarlegast að slíta viðræðunum áður en lengra væri haldið.“ Þá staðfesti Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í samtali við Stundina í gær að Benedikt hefði tilkynnt sér að hann hefði ekki sannfæringu um að stjórnarmyndun tækist og í kjölfarið hefði viðræðunum verið hætt.
Eins og Stundin fjallaði um í gær véku ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins frá samþykktri fjármálaáætlun sinni í tveimur veigamiklum atriðum í lok síðasta kjörtímabils, annars vegar með viðbótarfjárfestingum í samgönguáætlun og hins vegar með auknu fjármagni til almannatrygginga. Báðar aðgerðirnar eru í raun ófjármagnaðar, en um er að ræða hátt í 30 milljarða útgjöld sem munu valda hallarekstri ríkissjóðs á næsta ári ef aukinna tekna verður ekki aflað.
Fram kom í viðtali Mbl.is við Benedikt í gærmorgun að það hefði sett „strik í reikninginn í stjórnarmyndunarviðræðunum að staðan í ríkisfjármálum sé tugum milljarða þrengri en talið var við upphaf viðræðnanna“. Þá sagði hann í Kastljósi: „Allt í einu kemur í ljós að ríkisfjármálin standa ekki jafn vel og við töldum“.
Hins vegar er ljóst að umræddar útgjaldaskuldbindingar lágu þegar fyrir og höfðu verið samþykktar á Alþingi áður en Viðreisn kynnti hugmyndir sínar um stórfellda aukningu ríkisútgjalda þann 23. október.
Þorsteinn Víglundsson hefur lýst efasemdum um að rétt sé að ráðast í útgjaldaaukningu upp á 40 til 50 milljarða. Í viðtalinu við Mbl.is segir:
„„Það var búið að varpa fram hugmyndum um hversu mikið þyrfti að auka útgjöldin að mati sér í lagi kannski Vinstri grænna,“ segir Þorsteinn og kveður 40-50 milljarða útgjaldaaukningu hafa ítrekað verið setta fram í viðræðunum. […] Hann segir þó líka umhugsunarefni að ef ekki sé hægt að fjármagna þau loforð sem hafa verið gefin í velferðar- og heilbrigðismálum við núverandi stig hagsveiflunnar, hvort slík útgjaldaloforð séu þá yfirhöfuð sjálfbær. „Þetta kallar á endurskoðun á ríkisfjármálum og nýja forgangsröðun. Það er vinna sem við treystum okkur fyllilega í á kjörtímabilinu. Það þarf hins vegar þolinmæði og vönduð vinnubrögð til að ljúka þeirri vinnu.““
Þá er haft eftir honum á Vísi.is: „Það var ljóst að við værum flokkur sem höfum lagt á það áherslu að hvorki sé þörf né rétt á þessum tímapunkti hagsveiflu að stórauka ríkisútgjöld og hækka skatta þegar allir skattstofnar ríkisins eru í hámarks afrakstri. Það mætti spyrja sig hvort þetta útgjaldastig væri sjálfbært þegar skattbyrði hér er há í alþjóðlegum samanburði. Við töldum ekki hægt að vinna með þessar tillögur þó það væri hægt að ræða afmarkaðar breytingar.“
Athugasemdir