„Þetta er nú leiðindaklúður með birtingu skýrslunnar, ég get alveg tekið undir það um leið og ég fagna því að skýrslan sé komin fram,“ sagði Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, í kvöldfréttum Stöðvar 2 eftir að hann var inntur eftir afstöðu sinni til ákvörðunar Bjarna Benediktssonar um að birta almenningi ekki skýrslu um umfang skattaskjólseigna fyrr en eftir þingkosningar. „Þetta eru mikilvægar upplýsingar sem hefði auðvitað verið skemmtilegra að hefðu komið fram fyrir kosningar. En við göngum til stjórnarsamstarfsins á grundvelli málefna og málefnasamnings sem við höfum verið að vinna.“
Óttarr tjáði sig einnig um málið við RÚV. Þar eru eftirfarandi orð höfð eftir honum: „Við leggjum mikla áherslu, í þessum stjórnarmyndunarviðræðum öllum, að vanda verklag, auka gegnsæið og vinna nákvæmlega að svona málum. Vinna gegn skattaundanskotum og þar með talið gegn skattaskjólum. Þannig að ég held að þetta smellpassi inn í okkar vinnu og hugmyndafræðina að baki myndunar þessarar ríkisstjórnar.“
Stundin sendi Óttari fyrirspurn um afstöðu hans til vinnubragða Bjarna Benediktssonar í dag og mun greina frá svörunum þegar þau berast.
Eins og fram hefur komið fór Bjarni Benediktsson með rangt mál um helgina þegar hann sagðist ekki hafa fengið skýrslu starfshóps um umfang aflandseigna Íslendinga inn í ráðuneyti sitt fyrr en eftir að þingi var slitið í október. Í sama viðtali sakaði hann pólitíska andstæðinga um „þvætting“, „fyrirslátt“ og „pólitík“. Hið rétta er að umrædd skýrsla var afhent fjármála- og efnahagsráðuneytinu þann 13. september þegar um mánuður var eftir af þingstörfum. Bjarni hefur viðurkennt að hafa sjálfur ákveðið að birta skýrsluna ekki fyrr en eftir kosningar, enda hafi hann ekki viljað setja skýrsluna „í kosningasamhengi“.
Athugasemdir