„Við náttúrufólkið erum ekki lítill hópur sem auðvelt er að hunsa og hæðast að. Nei, við erum fjöldahreyfing,“ sagði Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur í ræðu sem hún flutti rétt í þessu í Háskólabíó þar sem náttúruverndarsamtök standa fyrir hátíð til verndar hálendi Íslands, undir heitinu Paradísarmissir? „Þetta er barátta fyrir framtíðina. Þetta er orrustan um Ísland,“ sagði Kristín sem sagði meðal annars að við þyrftum ný gildi.
„Þetta er orrustan um Ísland“
Fullt er út úr dyrum í Háskólabíó og varð að loka stóra salnum þegar fleiri komust ekki að. Þá safnaðist fólk saman fyrir framan salinn og fylgdist með hátíðinni á skjám sem þar voru. Fyrr í dag höfðu um 2.000 manns boðað komu sína á hátíðina og því ljóst að það kæmust ekki allir inn: „Þetta snýst um að fylla húsið og umkringja það og gera þetta að viðburði sem fer í sögubækur. Mikilvægustu gestirnir verða þeir sem komast ekki inn í Háskólabíó í kvöld. Þeir gera það sýnilegt að okkur er alvara,“ skrifaði einn.
Frú Vigdís Finnabogadóttir er á meðal þeirra sem eru í salnum, en Andri Snær Magnasson hóf erindi sitt með því að ávarpa hana og óska henni til hamingju með afmælið í gær. Þá fékk hann Elísabetu Jökulsdóttur rithöfund til að leiða afmælissöng fyrir hana og tók salurinn undir. Vigdís er verndari Landverndar.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, steig í pontu og sagði þetta ögurstundu, nú stæðum við á tímamótum og hefðum val um það hvort hjarta landsins yrði klofið eður ei. Nú væri tækifæri til að snúa paradísarmissi í paradísarheimt.
Hægt er að horfa á beina útsendingu frá hátíðinni hér:
Athugasemdir