„Virðulegi forseti, var hann að fara til þess að fara á fund? Var hann að fara að tala við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða Sameinuðu þjóðirnar eða hvað? Hann var að fara að fá sér köku, virðulegi forseti. Ég verð bara að segja það að mér finnst þetta með algjörum ólíkindum. Ég spyr forseta hvort þetta geti talist til sóma í þinginu?“
Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, um Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, á Alþingi í dag. Sigmundur Davíð mun hafa yfirgefið þingsalinn á meðan Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, beindi til hans fyrirspurn um vernd afhjúpenda. Nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku í kjölfarið til máls þar sem þeir sökuðu forsætisráðherra um að sýna samþingmönnum sínum óvirðingu. Kjarninn sagði fyrst frá málinu.
„Virðulegi forseti, við þekkjum auðvitað þennan hæstvirta forsætisráðherra sem verið hefur um skamma hríð að því að sýna hér ítrekað ótrúlega óvirðinu gagnvart samstarfsfólki sínu í þinginu og fyrir það að skorast undan því mánuðum og misserum saman að ræða við þingmenn efni sem þeir óska eftir því að fá að ræða við hæstvirtan forsætisráðherra.
Nú þegar forsætisráðherra fæst til þess að koma og svara fyrirspurn þá getur hann ekki einu sinni séð sóma sinn í því að ljúka umræðunni og hlusta á síðara innleggið frá þeim sem spyr hann,“ sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, og skoraði á forseta Alþingis að taka þessa lítilsvirðingu forsætisráðherra gagnvart þinginu og gagnvart samstarfsmönnum sínum á Alþingi til greina.
„Þetta er stanslaust og linnulaust. Þetta er óþolandi og þetta er Alþingi til mikils ósóma.“
„Virðulegi forseti, ég hélt að ég væri endanlega hættur að verða hissa á nokkurs konar lítilsvirðingu hæstvirts forsætisráðherra gagnvart þinginu en í þetta sinn varð ég pínulítið hissa. Þetta er óvenjuleg tegund af henni.
Hins vegar verð ég að viðurkenna, virðulegur forseti, að ég er orðinn svolítið þreyttur á því að þurfa að koma hingað og lýsa því að ég sé ekki hissa yfir því hvernig forsætisráðherra komi fram við þingið. Það er fullkomlega mannlegt að gera mistök, kannski af og til, og þá útskýra þau eða eitthvað því um líkt. En þetta er skýrt mynstur,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, um málið. „Þetta er stanslaust og linnulaust. Þetta er óþolandi og þetta er Alþingi til mikils ósóma,“ sagði hann.
„Það nær sífellt nýjum hæðum, hrokinn og yfirlætið sem forsætisráðherra þessa lands sýnir okkur samstarfsfólki sínu,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna. „Málið sem hér var rætt var lagt fram 13. nóvember á síðasta ári og nú sá forsætisráðherra sér fært að mæta hingað í þingsal og ræða við formann Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs en hann hafði augljóslega ekki tækifæri eða tíma til að ljúka þeirri umræðu vegna þess að hann var hér frammi að fá sér kaffi og köku.
Hvert telur hann að hlutverk sitt sé sem ráðherra í ríkisstjórn? Er það ekki að eiga hér samskipti við þingmenn? Eða er það eitthvað allt annað?
Hér er talað um samskiptaörðugleika, óvirðingu og ýmislegt fleira sem manni dettur í hug. Það er alveg óhætt að segja það að hæstvirtur forsætisráðherra leggur ekkert að mörkum til þess að liðka fyrir þingstörfum, svo mikið er víst.“
Athugasemdir