Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Hafa áhyggjur af svigrúmi Evu Joly til að tjá „öfgaskoðanir“

Urg­ur í sjálf­stæð­is­mönn­um vegna við­tals við Evu Joly og frétta­flutn­ings Kast­ljóss af nýj­um upp­lýs­ing­um um sím­tal Dav­íðs og Geirs.

Hafa áhyggjur af svigrúmi Evu Joly til að tjá „öfgaskoðanir“

Guðlaugur Þór Þórðarson, oddviti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, hefur áhyggjur af því að Eva Joly, rannsóknardómari í Frakklandi til 20 ára og baráttukona gegn spillingu, fái of mikið svigrúm til að tjá „öfgaskoðanir“. 

Þetta kemur fram í Facebook-færslu frá Guðlaugi þar sem hann gerir orð Viðskiptablaðsins um Pírata og Evu Joly að sínum. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur Eva Joly lýst yfir stuðningi við Pírata. Urgur er í sjálfstæðismönnum, bæði vegna fréttaflutnings Kastljóss af upplýsingum um símtal Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde sem ekki höfðu áður komið fram og vegna viðtals sem tekið var við Evu Joly fyrr í vikunni.

Í grein Viðskiptablaðsins sem Guðlaugur Þór deilir er ýjað að því að fjárhagslegir hagsmunir búi að baki baráttu Evu Joly gegn spillingu. Fram kemur að hún og Píratar nærist á að „halda því fram nógu oft og nógu mikið að allir hinir séu spilltir. Þannig halda þau lífi í stjórnmálaskoðunum sínum og eftir tilvikum hafa þau af því fjárhagslegan ávinning (eins og í tilfelli Joly). Og hér á landi hentar það vel að skjóta fast á núverandi stjórnarflokka“. Guðlaugur gerir þessi orð að sínum.

Þingmaðurinn hefur sjálfur margsinnis verið sakaður um spillingu. Hann var stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur þegar REI-málið svokallaða komst í hámæli haustið 2007 en nokkru áður hafði hann aflað Sjálfstæðisflokknum 55 milljóna króna styrkjum frá FL Group og Landsbankanum. Þá var greint frá því að Guðlaugur hefði þegið mun hærri styrki frá fyrirtækjum en aðrir frambjóðendur vegna þingkosninganna 2007.

Sumarið 2010 ályktaði landsfundur Sjálfstæðisflokksins að Guðlaugur Þór ætti að segja af sér vegna hinna háu styrkja frá einkafyrirtækjum. Hann hlýddi ekki kallinu heldur sat áfram á þingi. Guðlaugur Þór lenti í öðru sæti í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þann 3. september síðastliðinn og hlaut 720 atkvæði Haft var eftir honum í viðtali við RÚV að hann vildi verða ráðherra í næstu ríkisstjórn. 

„Hvað næst ISIS?“

Guðlaugur Þór er ekki sá fyrsti sem sakar Evu Joly um öfgar. Þegar Kastljós tók viðtal við hana í fyrra tjáði Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sig á Facebook. „Af hverju er Kastljós að ýta undir öfgaskoðanir? Hvað næst ISIS?“ skrifaði hann. 

Eva Joly starfaði sem rannsóknardómari í Frakklandi um árabil en hefur verið fulltrúi franskra græningja á Evrópuþinginu frá árinu 2009. Nú situr hún í svokallaðri Panamaskjalanefnd sem tók nýlega til starfa.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gerði lítið úr Evu Joly í sjónvarpsumræðum á Stöð 2 á dögunum þegar Jón Þór Ólafsson, frambjóðandi Pírata, sagði hana tilbúna að aðstoða Íslendinga við að uppræta spillingu. „Þetta er konan sem fékk 1 prósent í Frakklandi,“ sagði þá Bjarni og vísaði til ósigurs hennar í forsetakosningunum í Frakklandi árið 2012 þegar hún bauð sig fram sem forsetaefni Evrópugræningja þar í landi. 

„Hvað gengur fjölmiðlamönnum til með umfjöllun rétt fyrir kosningar um löngu liðna atburði sem búið er að rannsaka fram og til baka? Þeir eru farnir að hegða sé eins og helstu skítadreifarar samfélagsmiðlanna með dylgjur um svik og óheiðarleika pólitískra andstæðinga sinna. Þeir Illugi og Gunnar Smári eru engu betri en vinur þeirra Donald Trump,“ skrifar Brynjar Níelsson, þingmaður og þingframbjóðandi Sjálfstæðisflokksins á Facebook.

Þá kallar hann Ríkisútvarpið stjórnmálahreyfingu: „Skemmtileg þessi nýja stjórnmálahreyfing i Efstaleitinu. Kom á framfæri við okkur boðskap gamals vinstri róttæklings, sem fékk rúmlega 1% fylgi í frönsku forsetakosningunum, um að kjósa ekki núverandi stjórnarflokka. Síðan taldi nýja stjórnmálahreyfingin rétt að koma á framfæri við okkur eldgömlum upplýsingum úr Seðlabankanum ef við skyldum gleyma hverjir bæru nú ábyrgð á fjármálakreppu heimsins.“ 

Í umfjöllun Kastljóss í síðustu viku var greint frá vitnaskýrslu sem hefur að geyma nýjar vísbendingar um að Davíð og Geir hafi vitað fyrirfram að 77,5 milljarða lán Seðlabankans til Kaupþings myndi ekki fást endurgreitt. Sem kunnugt er tapaði ríkissjóður um 35 milljörðum á láninu. Þá var einnig greint frá því í Kastljósi að Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands, hefði gengist við því að hafa brotið trúnað þegar hann upplýsti eiginkonu sína um aðgerðir Seðlabankans í aðdraganda setningar neyðarlaganna. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Alþingiskosningar 2016

Mest lesið

Íslendingar þurfi að ákveða hvar þeir staðsetja sig: „Þetta eru mjög válegir tímar“
4
ViðtalBandaríki Trumps

Ís­lend­ing­ar þurfi að ákveða hvar þeir stað­setja sig: „Þetta eru mjög vá­leg­ir tím­ar“

Pól­skipti hafa átt sér stað í vest­rænu varn­ar­sam­starfi með skyndi­legri stefnu­breyt­ingu Banda­ríkj­anna í ut­an­rík­is­mál­um, seg­ir Erl­ing­ur Erl­ings­son hern­að­ar­sagn­fræð­ing­ur. Hætta geti steðj­að að Ís­landi en Banda­rík­in hafi sýnt að þau séu óút­reikn­an­leg og beri ekki virð­ingu fyr­ir leik­regl­um al­þjóða­kerf­is­ins.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Einn og hálfur tími á bráðamóttöku: Sjálfsskaði, hjartastopp og hnífstunga
4
Á vettvangi

Einn og hálf­ur tími á bráða­mót­töku: Sjálfsskaði, hjarta­stopp og hnífstunga

Eitt orð má aldrei nota á bráða­mót­töku Land­spít­al­ans og það er orð­ið ró­legt. Nán­ast um leið og Jón Ragn­ar Jóns­son bráða­lækn­ir hef­ur orð á að það sé óvenju ró­legt á næt­ur­vakt eina helg­ina dynja áföll­in á. Hann hef­ur rétt kom­ið manni til lífs þeg­ar neyð­ar­bjall­an hring­ir á ný. Síð­an end­ur­tek­ur sama sag­an sig.

Mest lesið í mánuðinum

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár