Formlegar viðræður um myndun nýrrar ríkisstjórnar hægri flokkanna Sjálfstæðisflokksins og Viðreisn, ásamt miðjuflokknum Bjartri framtíð, eru nú hafnar.
Líkur eru á því að um verði að ræða hægrisinnuðustu ríkisstjórn lýðveldissögunnar, eins og Stundin greindi frá í lok október. Aldrei áður hafa tveir hægri flokkar leitt ríkisstjórn á lýðveldistíma Íslands, en samanlagt fengu Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn tæplega 40 prósent atkvæða í alþingiskosningunum. Líklegt er að skattalækkanir og aðhald í opinberum rekstri verði niðurstaðan af slíku ríkisstjórnarsamstarfi, þótt aukin opinber fjárfesting virðist óumflýjanleg eftir afar lágt fjárfestingarstig síðustu ára og þrátt fyrir ríkisfjármálaáætlun Bjarna Benediktssonar sem gerði ráð fyrir áframhaldandi aðhaldi.
Tilkynning um formlegar viðræður flokkanna þriggja barst frá forsetaembættinu rétt í þessu. „Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson átti í dag, föstudaginn 11. nóvember 2016, fund með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, um gang viðræðna hans við forystumenn annarra stjórnmálaflokka. Formaður Sjálfstæðisflokksins tjáði forseta að ákveðið hefði verið að hefja formlegar viðræður fulltrúa Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar um myndun ríkisstjórnar sem nyti stuðnings meirihluta á Alþingi.“

Fram hefur komið undanfarna daga að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi verið lítið bjartsýnn á niðurstöður óformlegra viðræðna við Viðreisn og Bjarta framtíð. Óttarr Proppé, formaður Bjartar framtíðar, hefur vísað til þess að langt sé á milli Sjálfstæðisflokksins og Bjartar framtíðar. Í kjölfar umræðu um að stjórnarmyndunarumboðið yrði flutt til Vinstri grænna hafa flokkarnir nú tekið af skarið.
Sambærileg stefna
Stefna Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar eru í grundvallaratriðum keimlíkar, þótt Viðreisn sé minna íhaldssöm en Sjálfstæðisflokkurinn. Björt framtíð hefur tiltölulega sveigjanlega og opna stefnu en er nær Viðreisn en Sjálfstæðisflokknum.
Bæði Viðreisn og Björt framtíð eru hlynnt aðildarviðræðum við Evrópusambandið, en Sjálfstæðisflokkurinn ekki.
Þá eru Viðreisn og Sjálfstæðisflokkur hlynnt lækkun skatta. Einn nýrra þingmanna Viðreisnar, Pawel Bartoszek, telur til dæmis að skattar séu í reynd ofbeldi. Björt framtíð vill einfalda skattkerfið, sem fellur vel að stefnu Bjarna Benediktssonar í fjármáluráðuneytinu.
Líklegt er að nýrri ríkisstjórn fylgi aukin einkavæðing og einkarekstur, til dæmis í heilbrigðiskerfinu. Eitt af áherslumálum Viðreisnar er: „Beitt verði markaðslausnum við þjónustu við borgarana“. Heilbrigðismál er ein helsta stoð þjónustu ríkisins við borgarana. „Ríkið á að draga sig út úr samkeppnisrekstri eða gefa einkaaðilum kost á að starfa samhliða hinu opinbera, til að auka samkeppni og ná fram hagræðingu. Markmiðið á alltaf að vara að tryggja góða þjónustu fyrir almenning með sem lægstum tilkostnaði,“ segir í stefnu Viðreisnar.
Stefna Bjartrar framtíðar er flokkuð niður í: „Meiri fjölbreytni, minni sóun, minna vesen, meiri sátt“.
Björt framtíð og Viðreisn hafa sambærilegar áherslur varðandi breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og landbúnaðarkerfinu. Báðir flokkar vilja auka áherslu á markaðsleið í úthlutun aflaheimilda, en ein útfærsla þess er uppboðsleiðin svokallaða. Hvorugur flokkurinn hefur hins vegar verulega afgerandi afstöðu um útfærslur leiðarinnar.
„Markaðstengt afgjald verði tekið upp fyrir nýtingu auðlinda í almannaeigu. Afgjaldið nemi að lágmarki þeim umhverfiskostnaði sem nýtingin veldur,“ segir í stefnu Viðreisnar.
Björt framtíð vill að sátt verði sköpuð um fiskveiðistjórnunarkerfið með því að „arðurinn renni til þjóðarinnar“ og að „greinin njóti góðra skilyrða til að skila hagnaði“. Stefna Bjartrar framtíðar virðist hins vegar sveigjanleg: „Það þarf að gera með gagngerri endurskoðun núverandi veiðigjaldakerfis eða uppboði á aflaheimildum með skilyrðum sem tryggja m.a. nægilegan varanleika og rekstraröryggi hjá þeim sem gera út og stunda fiskvinnslu og koma í veg fyrir of mikla samþjöppun og tryggja raunverulega og virka samkeppni um aflaheimildir Við teljum að rétt sé til að byrja með að nota báðar aðferðir, þ.e. veiðigjöld og uppboð, þ.e. úthluta hluta fiskveiðikvóta með þeim aðferðum sem nú er gert en með endurskoðuðum veiðigjöldum og úthluta hluta kvótans á grundvelli uppboða. Eins og t.d. þegar aflamark er aukið verulega frá fyrri fiskveiðiárum og í nýjum tegundum. Þannig megi líka meta kosti og galla þessara aðferða og sníða af þeim annmarka áður en varanlegu kerfi verður komið á. “
Sjálfstæðisflokkurinn styður kvótakerfi í núverandi mynd og hefur lagst gegn hækkun veiðigjalda.
Talsmenn atvinnulífsins áberandi
Bjarni Benediktsson hefur sagt slíka ríkisstjórn vera með óþægilega tæpan meirihluta, aðeins 32 þingmenn gegn 31. Þetta er þó sami meirihluta og Nýsköpunarstjórnin 1944 til 1947 og Viðreisnarstjórnin 1963 til 1971, sem samsett var af hægri og vinstri flokki, Sjálfstæðis- og Aþýðuflokki.
Líklegt er að talsmenn atvinnulífsins yrðu áberandi í hægri stjórninni og að lögð verði áhersla á að gæta að hag fyrirtækja, en stunda aðhald í ríkisútgjöldum og umsvifum hins opinbera. Þá er einkavæðing og einkarekstur líklegri í slíkri ríkisstjórn, til dæmis í heilbrigðis- og menntakerfinu. Áhersla á skattalækkanir, ekki síst á fyrirtæki, er líklegri í slíkri ríkisstjórn en nokkurri annarri.
Líklegir ráðherrar
Gera má ráð fyrir því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi ráðherra Sjálftæðisflokksins og forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins, verði ráðherra, og svo Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Þorsteinn vakti athygli þegar hann varð málsvari þess að almenningur fengi sem minnstar launahækkanir, svo forðast mætti verðbólgu. Hann varaði við því í fyrra að launahækkanir mættu ekki verða meira en 3 til 4 prósent. „Við erum einfaldlega komin á endastöð,“ sagði hann. „Við erum að gera miklu meira en að hringja viðvörunarbjöllum. Við erum í raun og veru í krísuástandi. Við höfum vaxandi áhyggjur af raungengi íslensku krónunnar á mælikvarða launa, það er hvernig launakostnaður fyrirtækja hér er að hækka í samanburði við nágrannalönd okkar.“
Þorsteinn sagði við úrslit kosninganna að meginniðurstaða þeirra hefði verið að kjósendur höfnuðu vinstri stjórn. „Það blasir náttúrulega við að þjóðin var að hafna hugmyndum um vinstristjórn og það hafði töluverð áhrif á kosningarnar. Við fundum það á síðustu vikunni að það færðist töluverður ótti yfir kjósendur varðandi hreina nýja vinstristjórn. Ég held að það séu nú megin skilaboðin sem megi lesa út úr þessum kosningum.“
Aðrir líklegir ráðherrar eru Hanna Katrín Friðriksson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Icepharma, og Jón Steindór Valdimarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, ásamt Benedikt Jóhannessyni, fjárfesti, útgefanda og formanni Viðreisnar. Ljóst er að Óttarr Proppé er líklegur ráðherra fyrir Bjarta framtíð. Úr Sjálfstæðisflokknum má gera ráð fyrir að Bjarni Benediktsson fái með sér Ólöfu Nordal og Kristján Þór Júlíusson, en að auki er hugsanlegt að Páll Magnússon, Haraldur Benediktsson eða jafnvel Guðlaugur Þór Þórðarsson komi inn sem nýir ráðherrar.
Athugasemdir