Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í velferðarnefnd, sagði í viðtali á Bylgjunni í morgun að mikilvægt væri að velta fyrir sér hvernig því fjármagni, sem Íslendingar muni setja í aðstoð til flóttamanna, sé best varið. „Við þurfum að gera þetta þannig að við hugsum vel um þetta fólk. Það hefur ekkert upp á sig á flytja flóttamannabúðir til Íslands. Við þurfum auðvitað að koma þessu fólki fyrir á heimilum og undirbúa það fyrir lífið og taka þátt í lífinu á íslenska vísu. Það kostar fullt af peningum,“ sagði hann meðal annars.
„Það kostar fullt af peningum“
„Mér er sagt að það væri jafnvel hægt að tífalda þann fjölda sem við getum aðstoðað ef fjármagnið yrði notað erlendis. Ég er að segja þetta án þess að ég hafi fullt vit á því. En það er mjög mikilvægt fyrir okkur, einmitt í þessari stöðu þegar við erum fús að hjálpa, að gera okkur grein fyrir því hvar peningarnir koma sér best. Hvar verður mest úr þeim,“ segir Ásmundur.
Forsætisráðherra talar um tilfærslu framlaga
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra talaði á svipuðum nótum að loknum fyrsta fundi ráðherranefndar um málefni flóttafólks og innflytjenda í byrjun mánaðar. Á fundinum var ekki tekin ákvörðun um hve margir flóttamenn fá hæli á íslandi á þessu ári, en Sigmundur Davíð sagði hins vegar brýnt að huga að flóttamönnum utan Evrópu.
„Þetta er það stórt verkefni að við munum aldrei geta sagt að við séum búin að setja nóg í málaflokkinn. En ég sé fyrir mér að við munum auka verulega framlög okkar til þessa málaflokks með nýjum framlögum, hugsanlega með einhverri tilfærslu framlaga og einnig í gegnum samstarf okkar við önnur lönd til dæmis í EFTA þar sem liggur fyrir tillaga um að nýta þróunarsjóð EFTA í auknum mæli til þess að aðstoða við þetta vandamál,“ segir Sigmundur Davíð.
Ríkisstjórnin gagnrýnd fyrir seinagang
Tæpar tvær vikur eru síðan ráðherranefnd um málefni flóttafólks og innflytjenda kom fyrst saman og enn hafa engar aðgerðir verið kynntar. Ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir að draga lappirnar í málinu og að félagsmálaráðherra gefi óljós svör um hvað skuli gert.
Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, sagði í svari við fyrirspurn Stundarinnar í síðustu viku að „innan skamms“ myndi ríkisstjórnin greina frá aðgerðum til að bregðast við flóttamannavandanum í Evrópu og hvernig Ísland geti lagt sitt að mörkum. Þá sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í viðtali við Stöð 2 í gærkvöldi að aðgerðirnar verði kynntar á næstu dögum eða „ekki innan langs tíma.“
Athugasemdir