Hópur listamanna í New York kom fyrir styttu af bandaríska uppljóstraranum Edward Snowden í Brooklyn garði síðastliðinn mánudag. Hópurinn kom styttunni fyrir í óleyfi í dögun, en um miðjan dag var hún horfin. Lögreglan hafði fjarlægt hana.
Styttunni hafði verið stillt upp á stórri súlu í garðinum, en hún er hluti af minnisvarða um 11.500 fangelsaðra píslarvotta sem létust um borð í breskum fangaskipum í bandaríska frelsisstríðinu árið 1776. Staðsetning virðingarvottsins var engin tilviljun.
Í viðtali við vefsíðuna Mashable sögðust aðgerðasinnarnir hafa valið þennan stað því hann væri hlaðinn merkingu og virðingu. Þá segja þeir staðsetninguna viðeigandi því saga Snowden væri í raun framhald á sögu þessara föllnu stríðsfanga sem áttu þátt í stofnun Bandaríkjanna. Í sumum fjölmiðlum sé Snowden úthrópaður landráðsmaður og hryðjuverkamaður, en það sama hafi eflaust verið sagt um píslavottana í frelsisstríðinu. Nú átti sig hins vegar flestir á mikilvægi málsstaðar þeirra. Eitt sinn hafi þeir verið glæpamenn, nú séu þeir hetjur.
Athugasemdir