Umtalsvert hefur verið fjallað um dómsmál níræðrar konu gegn heimabæ sínum, Garðabæ, eftir að hún fór í skaðabótamál við bæinn vegna framkvæmda sem hún taldi að hefðu ollið skemmdum á einbýlishúsi hennar. Árið 2013 vann konan málið í Héraðsdómi Reykjaness og var Garðabæ gert að borga henni 35 milljónir krónur. Þeim dómi var áfrýjað og síðastliðinn nóvember fór svo að Hæstiréttur dæmdi Garðabæ í vil.
Konan óskar eftir nafnleynd en aðstandendur hennar hafa komið á fót Facebook-síðu fyrir hana og krefjast réttlætis.
Héðinn Ásbjörnsson, barnabarn konunnar, segir í samtali við Stundina að amma sín búi nú í kjallaraholu í Garðabæ, auk þess sem hún borgi enn fasteignagjöld vegna ónýta hússins sem stendur við Goðatún.
„Amma mín er eignalaus og lífeyrir hennar er í rúst. Hún er búin að búa þarna í nærri fjörutíu ár. Húsið var dæmt ónýtt og hún er bara að leigja einhverja holu,“ segir Héðinn.
„Hún er búin að búa þarna í nærri fjörutíu ár. Húsið var dæmt ónýtt og hún er bara að leigja einhverja holu.“
Gagnrýnir Hæstarétt
Héðinn gagnrýnir harðlega vinnubrögð Hæstaréttar í máli ömmu sinnar og segir þau ekki til þess fallin að auka trúverðugleika á því dómstigi. „ Allur þessi aðdragandi að uppkvaðningu í Hæstarétti var svo vitlaus að hálfa væri nóg. Þegar það átti að taka málið fyrir í Hæstarétti loksins þá fékk lögmaður Garðabæjar í bakið þannig að réttarhöldum var frestað um þrjár vikur. Í millitíðinni var skipt um dómaratríó. Þetta sama dómaratríó gat ekki komist að niðurstöðu þannig að málinu var vísað frá Hæstarétti sem heyrir alveg til undantekninga,“ segir Héðinn.
Ný skýrsla lögð fyrir Hæstarétt
Héðinn segir að ein helsta ástæða þess að Hæstiréttur hafi dæmt ömmu sinni í óhag sé skýrsla sem lögð hafi verið fyrir Hæstarétt en ekki héraðsdóm. „Vegna þess að það voru svo miklir hagsmunir í húfi fyrir Garðabæ gátu þeir ekki kveðið upp dóm sem byggði á þeim gögnum sem lágu fyrir í málinu á þessum tímapunkti.
Síðan liðu nokkrar vikur og þá var skipaður nýr dómur með fimm dómurum. Í millitíðinni kom sækjandi Garðabæjar með ný gögn sem byggðu á skýrslu um hús nágrannakonu ömmu minnar. Þar bendir allt til þess að húsið sé svo illa byggt. Dómurinn var svo byggður á þeirri skýrslu, en ekki þeim sem lágu fyrir,“ segir Héðinn.
Sáttatillaga eftir Kastljós
Kastljós fjallaði um málið í desember. Héðinn segir að eftir það hafi margir haft samband við sig vegna máls ömmu sinnar. „Kastljósið vakti mjög hörð viðbrögð í samfélaginu og maður fékk skeyti og kveðjur frá fólki sem maður þekkti ekki.
Allt fór á fullt, þetta var mikið í umræðunni, og þá kom sáttatillaga frá Garðabæ, við ættum að koma og ræða málin. Við fórum þangað á nýju ári í janúar og áttum að koma með tillögu að sátt. Við gerðum það en síðan gerðist ekkert.
Í mars kom svo í ljós að þeir ætla ekkert að gera fyrir okkur. Þetta var bara til að drepa niður málið í fjölmiðlum, svo það yrði ekki einhver smánarblettur á Garðabæ,“ segir Héðinn.
Stundin óskaði eftir skýringum frá bænum en þaðan hafa svör ekki enn borist.
„Við fórum þangað á nýju ári í janúar og áttum að koma með tillögu að sátt. Við gerðum það en síðan gerðist ekkert.“
Mýrin að þorna upp
Héðinn segir að handvömm Garðabæjar, sem málið snúist allt um, sé hvernig staðið var að því að skipta um jarðveg við götuna. „Málið snýst um að framkvæmdir sem voru unnar af Garðabæ árið 2008 gerðu það að verkum að hús sem var byggt miðað við þáverandi byggingarreglugerðir og byggingarleyfi liggur undir skemmdum er ónýtt.
Það er búið að henda fleiri fleiri milljónum í málsvörn og sókn. Við reyndum að fara samningaleiðina áður en farið var í málssókn. Húsið er allt að síga og er á fleygiferð vegna þess að það er búið að grafa götuna og skipta um jarðveg. Mýrin sem húsið stóð á er að þorna upp þannig að jarðvegurinn heldur húsinu ekki uppi lengur,“ segir Héðinn.
Uppfært klukkan 15:30
Hulda Hauksdóttir, upplýsinga- og menningarfulltrúi Garðabæjar, segir í svari við fyrirspurn Stundarinnar að bærinn kannist ekkert við að hafa haft frumkvæði að sérstakri sáttargerð í málinu. Hún segir að lögmaður húseigenda hafi gert Garðabæ sölutilboð vegna hússins að fjárhæð 47 milljónir kr. Það bréf var tekið fyrir á bæjarfundi og vísar Hulda í eftirfarandi bókun af fundi bæjarráðs 3. mars síðastliðinn:
„Í dómi Hæstaréttar, sem kveðinn var upp 27. nóvember sl. var Garðabær sýknaður af kröfu húseiganda Goðatúns 34 um greiðslu bóta vegna skemmda á húsnæðinu sem húseigandi taldi að væru tilkomnar vegna framkvæmda á vegum Garðabæjar við götuna Silfurtún. Bæjarráð samþykkir með vísan til niðurstöðu dóms Hæstaréttar að leggja til við bæjarstjórn að hafna sölutilboði bréfritara.“
Athugasemdir