Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir að litla gula hænan lifi enn góðu lífi. Þetta myndmál er að finna í Facebook-færslu sem hún birti í kvöld en þar gerir hún formannskjörið á flokksþingi Framsóknarflokksins að umtalsefni. Eins og Stundin greindi frá í dag bar Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra sigurorð af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni flokksins til sjö ára.
„Framsóknarmenn gerðu risastór mistök í dag á flokksþinginu. Það hefur aldrei reynst vel að skreyta sig með stolnum fjöðrum. Litla gula hænan lifir góðu lífi - því miður,“ skrifar Vigdís.
Líkingamálið hefur vakið talsverða athygli á samfélagsmiðlum. Sem kunnugt er fjallar umrædd dæmisaga um litla gula hænu sem biður önnur dýr um hjálp við uppskeru, þreskingu, mölun og bakstur án árangurs. Dýrin reynast hins vegar viljug til að borða það sem hænan bakar, en hún neitar þeim réttilega um það.
Vigdís Hauksdóttir tekur undir lofgjörð Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, um Sigmund Davíð.
„Mikið rosalega er dapurt að sjá hvernig fólkið sem virðist lifa fyrir það eitt að skíta aðra út til að reyna upphefja sig sjálft ræðst á þann einstakling sem barðist fyrir þjóðina gegn Icesave, kom skuldaleiðréttingunni í gegn fyrir heimilin í landinu og tók slaginn við kröfuhafa föllnu bankanna og hafði þannig betur gegn fjármálaöflunum,“ skrifar Guðfinna og bætir við: „Barátta hans, kjarkur og þor skilaði nokkur hundruð milljörðum í ríkiskassann og því er nú hægt að bæta kjör fólksins í landinu og m.a. byggja nýjan spítala. Kjör fólksins í landinu verða nefnilega ekki bætt með umræðustjórunum á feisbúkk.“
Athugasemdir