Forystufólk fjögurra flokka á Alþingi hefur talað fyrir því í dag að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, taki við stjórnmyndunarumboðinu frá forseta og reyni að mynda starfhæfa ríkisstjórn.
Smári McCarthy, umboðsmaður Pírata, Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar lýstu þessari skoðun sinni á RÚV í dag. Þá tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, oddviti Viðreisnar í Suðurvesturkjördæmi, undir þessa kröfu í Twitter-færslu. „Blasir við að @katrinjak fái stjórnarmyndunarumboðið hjá forseta. Og kannski eitt stykki buff með,“ skrifar hún. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar hefur ekki viljað segja til um hver hann vilji helst að fái umboðið.

Í fréttatilkynningu frá framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins er haft eftir Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins, að hann útiloki ekkert um það hvert framhaldið verði í stjórnarmyndunarviðræðunum. ,Ég tel að samtöl undanfarinna daga hafi leitt í ljós að það væri afar óvarlegt að leggja af stað með þann málefnagrunn sem um er rætt og nauman meirihluta inn í kjörtímabilið. Margt segir mér að aðstæður kalli á ríkisstjórn með breiðari skírskotun og sterkari meirihluta en þann sem þessir þrír flokkar geta boðið. Ég útiloka ekkert fyrirfram í þeim efnum,” segir Bjarni sem mun hitta Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands á fundi á Bessastöðum klukkan fimm.
Katrín Jakobsdóttir hefur lýst sig reiðubúna að reyna að mynda starfhæfa ríkisstjórn, en samkvæmt könnun sem gerð var skömmu fyrir kosningar vilja um 40 prósent landsmanna helst að hún verði forsætisráðherra. Vísir greindi frá því áðan að Bjarni Benediktsson hefði haft samband við Katrínu en samkvæmt heimildum Stundarinnar er enginn áhugi á því meðal forystufólks í Vinstri grænum að ganga til stjórnarmyndunarviðræðna við Sjálfstæðisflokkinn.
Athugasemdir