Eggert Þór Kristófersson, nýráðinn forstjóri N1, er með um 3.200.000 krónur í mánaðarlaun samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Á dögunum var haft eftir Margréti Guðmundsdóttur, stjórnarformanni N1, að ástæðan fyrir forstjóraskiptum væri kostnaðarlækkun. Eggert Þór neitaði að tjá sig um laun sín þegar Stundin sóttist eftir svörum á dögunum.
„Ég bara get ekki svarað þessu, því miður. Ég er bundinn trúnaði um mín laun,“ svaraði Eggert Þór þá. Laun hans hækka um 5 milljónir á ári. Fyrri forstjóri N1, Eggert Benedikt Guðmundsson, var með tæplega fimm milljónir í mánaðarlaun. N1 sparar sér því um 18 hundruð þúsund krónur á mánuði í laun forstjóra félagsins.
Eggert Þór Kristófersson á að baki um 1.200 milljón króna gjaldþrot en tvö einkahlutafélög í hans eigu voru lýst gjaldþrota árið 2011. Eggert Þór var á árunum fyrir hrun lykilstarfsmaður fyrst Íslandsbanka og svo Glitnis og sem slíkur starfsmaður bauðst honum kúlulán til kaupa á hlutabréfum í bankanum.
Athugasemdir