Þrátt fyrir að hafa skrifað fjölda greina og bóka sem vakið hafa mikla athygli undanfarin ár, og verið einn fremsti fræðimaður og álitsgjafi landsins, var það ekki fyrr en í miðjum fellibylnum sem skall á íslenskum valdhöfum í kjölfar leka Panama-skjalanna sem Guðni Th. stimplaði sig rækilega inn í meðvitund þjóðarinnar, og þar með umræðuna um hugsanlega forsetaframbjóðendur.
Á meðan landsmenn sátu límdir við skjáinn og fylgdust með ráðamönnum hlaupa á milli stofnana í tilraun til að missa ekki tökin á stjórnartaumunum var Guðni eins og umsjónarmaður í dýralífsþætti, og hélt í höndina á undrandi áhorfendum, og útskýrði mögulegar útkomur, vísaði í dæmi úr stjórnmálasögunni og veitti farsanum þá jarðtengingu sem hann svo stórlega vantaði.
„Ég var alveg handviss um að það kæmi öflugur kvenframbjóðandi fram.“
Takturinn í atburðarásinni hafði fram að þessu verið töluvert hægari hjá Guðna, enda með fádæmum rólegur og orðvar maður. „Fyrir áramót höfðu sumir spurt mig hvort ég myndi sýna því áhuga að bjóða mig fram færi svo að Ólafur Ragnar hætti við. Svo færðist smá þungi í það þegar hann kynnti ákvörðun sína á nýársdag. En ég svaraði því til að ég vildi ekki fara í þá baráttu með öllu sem því fylgdi, meðal annars vegna þess að ég var alveg handviss um að það kæmi öflugur kvenframbjóðandi fram. Að ákall tímans væri um konu í embættið.“
Athugasemdir