Starfsstjórn fjármála- og efnahagsráðuneytisins, leidd af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra, hefur lagt fram frumvarp til fjárlaga 2017. Eins og síðustu þrjú fjárlög fráfarandi ríkisstjórnar eru þessi lögð fram hallalaus.
Fjárlög eru venjulega lögð fram með pólitískum vilja ríkisstjórnar, en þar sem ekki hefur tekist að mynda ríkisstjórn er þetta frumvarp byggt á fjármálastefnu 2017-2021 sem var samþykkt í ágúst á þessu ári. Ekki réð einhugur um þá stefnu, en hún var samþykkt með 29 atkvæðum og skilaði minnihlutinn séráliti. Eftir kosningarnar breyttist samsetning Alþingis mjög og er því óljóst hvort fjárlagafrumvarpið, sem byggt er á á þessari umdeildu fjármálastefnu, muni hljóta brautargengi.
Hvernig sem ný ríkisstjórn mun líta út mun hún geta skapað heimildir til að breyta útgjöldum fyrir árið 2017, hvort sem að þetta fjárlagafrumvarp verður samþykkt í núverandi mynd eða ekki.
Afgangur upp á 28,5 milljarða
Fjármálaráðherra kynnti fjölmiðlum nýtt fjárlagafrumvarp í dag. Í því er gert ráð fyrir 28,5 milljarða afgangi ríkissjóðs, en gjöld eru 734,4 milljarðar og tekjur 772. Bjarni sagði að sérstök áhersla væri lögð á heilbrigðis-, mennta- og löggæslumál, en er vöxtur útgjalda í þeim málaflokki 5% á yfirstandandi ári, sem er 7% hærra en árið 2006 á föstu verðlagi.
Helstu útgjaldamál í frumvarpinu eru:
-
Heildarframlög á nafnvirði til löggæslumála fara úr 11,8 ma.kr. árið 2015 í 13,7 ma.kr. á næsta ári.
-
Breytingar á lögum um almannatryggingar, sameining bótaflokka ellilífeyrisþega í einn grunnlífeyri o.fl. ‐ samtals 11,1 milljarða króna.
-
Aukin rekstrarframlög til heilbrigðismála, þar af aukin framlög til styrkingar á rekstri sjúkrahúsa og heilsugæslu hátt í 4 ma.kr. og 1,5 ma.kr. vegna nýs rammasamnings um rekstur hjúkrunarheimila – samtals 7,3 ma.kr.
-
Hækkun iðgjalda launagreiðenda til A‐deildar LSR úr 11,5% í 15,1% frá og með næstu áramótum – samtals 4,5 ma.kr.
-
Aukning útgjalda til mennta‐ og menningarmála, s.s. vegna styrkingar á rekstrargrunni háskóla og framhaldsskóla, auk þess sem veitt er framlag til listaframhaldsskóla til eflingar tónlisarfræðslu – samtals 2,5 ma.kr.
-
Nýr rammasamningur um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins – samtals 1,1 ma.kr.
-
Nýtt húsnæðisbótakerfi sem tekur gildi frá og með næstu áramótum – heildarumfang kerfisins verður um 6,5 ma.kr. en aukin framlög nema 785 m.kr. í frumvarpinu – samtals 0,8 ma.kr.
-
Byggðar‐ og sóknaráætlanir landshluta – samtals 0,5 ma.kr. Fjárhæðir og tekjuviðmiðunarmörk barnabóta ásamt eignamörkum vegna vaxtabóta hækkuð þannig að framlög milli áranna 2016 og 2017 haldist áfram óbreytt.
Skuldlaust Ísland 2025
Hagvöxtur hefur verið stöðugur síðustu ár og er gert fyrir því að hann haldi áfram út það tímabil sem fjárlagastefnan nær til, en væri það í fyrsta skipti í sögu íslenska lýðveldisins sem er samfelldur hagvöxtur í áratug.
Heildarskuldir Íslands eru svipaðar og fyrirfinnast í ESB ríkjunum, en í kjölfar hrunsins snarhækkaði vaxtakostnaður hins opinbera og nemur hann um 11% af tekjum ríkisins, sem er hærra hlutfall en í öllum ríkjum ESB.
Bjarni talaði um mikilvægi þess að nýta þann ágóða sem hefur skapast með aðhaldi í ríkisfjármálum til að minnka skuldir og vaxtakostnað frekar en að auka kostnað ríkissjóðs. „Við teljum að það séu viss þennslumörk í kerfinu,“ sagði Bjarni, „sem að krefjast þess að fólk beiti agaðri hagstjórn til að sporna gegn ofhitnun.“ Með þessu móti vildi hann meina að Ísland gæti orðið skuldlaust árið 2025.
Fjárfestingum hins opinbera er haldið lágt, en þó eru nokkrar undantekningar, eins og:
-
Framlög vegna byggingar þriggja nýrra hjúkrunarheimila á árunum 2016‐2018 – samtals 1,2 ma.kr.
-
Smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju – samtals 1,1 ma.kr (4,4 ma.kr. heildarkostnaður á 3 árum).
-
Aukin framlög til almennra vegaframkvæmda – samtals 1 ma.kr.
Í núverandi fjárlagafrumvarpi er hvergi að finna þá kröfu rektora allra háskóla á Íslandi að hækka framlag á hvern háskólanema þannig að það verði sambærilegt við Norðurlöndin, né í kröfu Kára Stefánssonar og rúmlega 85 þúsund Íslendinga að hækka heilbrigðisútgjöld úr 8,7% af værgri þjóðarframleiðslu í 11%.
Hægt er að nálgast fjárlagafrumvarpið hér (PDF skrá; hægri smellið og veljið Niðurhala).
Sjá einnig:
„Einn best rekni ríkissjóður í Evrópu“ rekinn með halla í miðri uppsveiflu
Athugasemdir