Ef vilji stendur til þess að stórauka fjárfestingar hins opinbera í innviðum vegna uppsafnaðrar fjárfestingarþarfar undanfarinna ára er æskilegt að hækka skatta og gjöld til að halda aftur af þenslu í hagkerfinu.
Þetta kom fram í máli Gylfa Zoega, prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands og nefndarmanns í peningastefnunefnd Seðlabankans, á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis með peningastefnunefnd í gær.
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, lagði spurningu fyrir nefndarmenn sem laut að fjárfestingum í innviðum og hvernig hið opinbera gæti staðið að slíku á þenslutímum án þess að ógna stöðugleika í efnahagslífinu. „Hvernig á hið opinbera að snúa sér í þessu verkefni undir þessum kringumstæðum?“ spurði hann.
„Punkturinn hérna varðandi hagstjórnina er sá að ef það er lagt í svona útgjöld, vegna þess að það þykir rétt að endurnýja núna en ekki bíða lengur, þá sé aflað skatttekna þannig að þensluáhrifin séu minni. Ég held að það sé nú punkturinn. Ef þið viljið leggja á skatta eða gjöld til að auka á útgjöld þá er hægt að gera það þannig,“ sagði Gylfi meðal annars.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, benti hins vegar á að spurning Guðmundar snerist um áherslur og forgangsröðun í ríkisfjármálum. „Þetta er ekki endilega spurning sem peningastefnunefnd á að svara,“ sagði hann.
„Þú fékkst svarið frá þeim sem er utan Seðlabankans þannig það svar er þá komið en við ætlum ekkert beint að hafa skoðun á því að öðru leyti en því að þegar ráðist er í slíkar fjárfestingar – og ég ætla ekkert að efast um nauðsyn þeirra – þá þarf bara að huga að þessu stóra samhengi og svigrúminu og raða þessu niður í tíma, og meira er ekki hægt að segja um það,“ sagði Már.
Eins og Stundin hefur áður fjallað um telur ríkisstjórnin að ekki sé svigrúm til stóraukinna fjárfestinga hins opinbera í innviðum næstu árin vegna þenslunnar í hagkerfinu og þeirra fjárfestinga sem fyrirhugaðar eru í einkageiranum.
Því er gert ráð fyrir því, samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, að fjárfestingarstig ríkisins verði álíka lágt og á tímum kreppunnar næstu fimm árin. Þetta er ekki aðeins lágt fjárfestingarstig á Íslandi í sögulegu samhengi heldur mjög lágt í samanburði við það sem tíðkast hefur undanfarna áratugi í flestum þróuðum ríkjum.
Um leið heldur hins vegar straumur ferðamanna til landsins áfram að aukast ár eftir ár með tilheyrandi álagi á vegakerfið sem fagaðilar telja að niðurlotum komið. Um þetta fjallaði Stundin nýlega í ítarlegri fréttaskýringu: Innviðir grotna niður í góðærinu.
Athugasemdir