Kvenréttindafélag Íslands vekur athygli á auglýsingu sem birtist í Fréttablaðinu í morgun á Facebook-síðu sinni. „Fílar þú þig sem harðkornadekk í dag?“ spyr félagið á Facebook.
Auglýsingin, sem er á vegum Dekkverks, sýnir dekk sem búið er að móta í kvenmannslíkama. Í samtali við Stundina segir Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, framkvæmdastýra félagsins, að um er að ræða dæmigerða og bókstaflega hlutgervingu kvenlíkamans. „Þetta er klassískt og bókstaflegt dæmi um hlutgervingu þegar konu er breytt í dekk. Ég skil ekki alveg hugsunina bak við þessa auglýsingu. Árið er 2015 og ég hélt að tími svona auglýsinga væri löngu liðinn,“ segir Brynhildur.
Hún bendir á að varan sem er auglýst komi líkama kvenna ekkert við. „Þetta snýst um hvernig kyn kvenna er smættað niður í hluti og svo notað í að auglýsa vöru sem tengist líkama kvenna ekki neitt. Það sem mér flaug strax í hug er hinn frægi Michelin-maður. Þá sér maður að þegar karlar eru notaðir, því Michelin-maðurinn er karlmaður og þetta er karllíkami, þá er hann fígúra sem er gerandi í auglýsingunni. Það er ekki verið að gera út á að hann sé sexí eða fallegur. Það er ekki verið að segja: „Girnstu mig“,“ segir Brynhildur.
Hún bendir enn fremur á að öll áhersla í auglýsingunni sé á brjóst dekkjakonunnar og hún hafi ekki einu sinni haus. „Síðan sjáum við þessa auglýsingu þar sem ekki nóg með það að þetta sé kvennlíkaminn sem er smættaður niður í dekk þá er hún algjörlega hauslaus líka. Það vantar á hana alla útlimi og það eina sem er lagt áhersla á eru brjóst, magi, rass og læri. Það er ekki verið að nota konu sem talskonu dekkja,“ segir Brynhildur.
Athugasemdir