Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,7% milli mánaða í mars en heildarhækkunin síðustu 12 mánuði nemur 20,9% og hefur ekki verið meiri síðan í upphafi ársins 2006.
Þetta kemur fram í fréttabréfi hagfræðideildar Landsbankans en í gær birti Þjóðskrá Íslands tölur um fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu. „Hækkanir milli mánaða voru verulegar að þessu sinni og meiri en hafa sést lengi og virðist takturinn stígandi,“ segir í bréfinu, en bent er á að raunverð fasteigna hefur hækkað um u.þ.b. 21,3% á einu ári frá mars 2016 til mars 2017.
Stundin hefur fjallað ítarlega um húsnæðisvandann á Íslandi en sjaldan hefur verið erfiðara fyrir ungt fólk að koma sér upp þaki yfir höfuðið en nú. Húsnæðisskortur, fjölgun erlendra ferðamanna og uppkaup stórra leigufélaga á jafnvel heilu íbúðablokkunum hefur ýtt undir sífellt hækkandi húsnæðis- og leiguverð á undanförnum árum sem veldur því að fjöldi fólks kemst ekki úr foreldrahúsum, gefst jafnvel upp og flytur úr landi. Ekki sér fyrir endann á þeirri þróun en samkvæmt nýlegri spá greiningardeildar Arion banka gæti húsnæðisverð hækkað um allt að þrjátíu prósent á næstu þremur árum.
Nýleg auglýsingaherferð Íslandsbanka hefur vakið hörð viðbrögð, en þar er því beint til ungs fólks að gefast ekki upp heldur gera „plan“.
Viðtalaröð, fjármögnuð af Íslandsbanka, birtist í Fréttablaðinu þar sem einkum var rætt við fólk sem hafði fengið lán frá foreldrum sínum til að kaupa fasteign og/eða hafði keypt fasteign áður en bólan myndaðist á fasteignamarkaði.
Ríkisstjórn Íslands hefur sett á fót aðgerðarhóp til að bregðast við því sem kallað er „neyðarástand“ á húsnæðismarkaði og mun hópurinn skila tillögum um úrbætur í maí. Þá hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins að undanförnu lagt fram lagafrumvörp þar sem lagt er til að skapaðir séu auknir hvatar til fyrirframgreiðslu arfs frá foreldrum og að stimpilgjöld séu afnumin til að „auðvelda fólki að afla sér íbúðarhúsnæðis og auka skilvirkni og flæði á markaði með það“.
Athugasemdir