Hafliði Helgason hefur verið ráðinn ritstjóri efnahags- og viðskiptafrétta hjá fréttastofu 365. Þetta kemur fram í frétt á Vísi.is en Hafliði starfaði á Fréttablaðinu frá 2001 til 2007 og var fyrsti ritstjóri Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins um viðskipti. Mun hann nú aftur annast ritstjórn fylgiritsins líkt og hann gerði á útrásarárunum en þá sætti hann gagnrýni fyrir þann mikla stuðning sem blaðið veitti íslensku fjármálalífi.
Hafliði hætti á Fréttablaðinu árið 2007 og tók til starfa hjá Reykjavik Energy Invest þar sem hann fékk að kaupa hlutabréf á vildarkjörum fáeinum vikum eftir ráðninguna. Að því er fram kemur á Vísi.is hefur Hafliði unnið að ýmsum verkefnum tengdum fjárfestingum undanfarin ár, nú síðast sem sérfræðingur hjá Framtakssjóði Íslands frá árinu 2012. Hann er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og á að baki nám í blaðamennsku í Svíþjóð og heimspeki við Háskóla Íslands.
Í bókinni Hamskiptin: Þegar allt varð falt á Íslandi eftir Inga Frey Vilhjálmsson, blaðamann á Fréttatímanum, er rakið hvernig Hafliði gætti hagsmuna viðskiptalífsins sem ritstjóri Markaðarins hjá 365 miðlum. „Ég starfaði á Fréttablaðinu á þessum tíma og man vel eftir því hvernig hann reyndi ítrekað að koma í veg fyrir að aðrir blaðamenn en þeir sem störfuðu á Markaðnum skrifuðu um íslensk fyrirtæki og útrásina með rökum eins og þeim að gagnrýnin og aðgangshörð skrif gætu eyðilagt tengsl viðskiptablaðsins við viðkomandi fyrirtæki og fleira í þeim dúr,“ segir í bókinni. „Þannig var reynt að koma í veg fyrir umfjöllun annarra blaðamanna um viðskiptalífið með því að slá á puttana á þeim.“
Athugasemdir