Og svo tjöllum við okkur í rallið: Bókin um Thor
Guðmundur Andri Thorsson
JPV Útgáfa
180 blaðsíður
**** (fjórar og hálf stjarna)
Bók Guðmundar Andra Thorssonar um pabba sinn, Thor Vilhjálmsson, er sérlega falleg, persónuleg og vel skrifuð. Kannski er þetta ein besta bók Guðmundur Andra - man í raun bara eftir Íslenska draumnum sem kemst nálægt henni. Hann hefur hér frá svo mörgu að segja því hann skrifar um föður sinn, frásögnin er tilfinningaleg á köflum og lífshlaup Thors gæti auðvitað alveg orðið efni í ævisögu í framtíðinni. Thor var stór karakter, nánast eins og skáldsagnapersóna úr skáldsögu eftir einhvern suðrænan höfund.
En kannski þarf enga ævisögu um Thor eftir þessa bók; að minnsta kosti ekki til að draga upp mynd af manninum sjálfum af því Guðmundur Andri er auðvitað í svo góðri stöðu til að lýsa honum. Bókin er byggð upp af ljósmyndum af Thor og skrifar Guðmundur Andri texta um hverja mynd og tengd efni.
Guðmundur Andri skrifar hlýjan stíl og mjúkan; þíðan og fallegan stíl sem mér finnst vera á öllu sem hann gerir sama hvort það eru blaðagreinar eða bækur. Mér finnst alltaf eins og hann sé að klappa mér með orðum þegar ég les hann því það er svo mikil stilling yfir textanum hans. Allt er á sínum stað og hann hefur svo góð tök á því sem hann vill segja. Að mínu mati hefur enginn núlifandi höfundur sömu tæknilegu tök og vald á íslensku máli í prósa og Guðmundur Andri. Mér finnst Guðmundur Andri jafnframt vera bestur þegar hann skrifar non-fiction en ekki skáldsögur því hann er fyrst og fremst frábær essayisti.
Athugasemdir