Áslaug Björgvinsdóttir starfaði sem dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur á árunum 2009 til 2015, fyrst sem settur héraðsdómari frá september 2009 til 1. mars 2010, en síðan sem skipuð héraðsdómari frá maí 2010. Hún ákvað að láta af embætti í fyrra þegar það rann upp fyrir henni að hún treysti ekki lengur íslensku dómskerfi. Áslaug telur að alvarlegir misbrestir séu á stjórnsýslu og innra eftirliti dómsvaldsins á Íslandi.
Þetta er á meðal þess sem fjallað er um í ítarlegri fréttaskýringu Stundarinnar um Kunningjaveldi dómstólanna og konurnar sem fengu nóg. Rætt er við Áslaugu um ástæður þess að hún lét af embætti. Jafnframt birtist viðtal við Elínu Sigrúnu Jónsdóttur, en hún starfaði sem framkvæmdastjóri dómstólaráðs í um áratug en hætti í kjölfar harðra deilna við tvo ráðsmenn sem hófust eftir að hún hvatti til þess að íslenskir dómstólar þægju aðstoð Norðmanna við að betrumbæta stjórnsýslu og starfshætti kerfisins.
Sjá einnig:
Undirmaður og kollegar dómstjóra
rannsökuðu vinnubrögð hans
Staða kvenna í dómstólakerfinu áfram veik
Maður með fjölskyldutengsl við dómstjóra ráðinn í launalaust starf hjá Héraðsdómi
Vildi þiggja aðstoð Norðmanna og kveðst hafa orðið fyrir einelti
Áður en Áslaug Björgvinsdóttir tók við embætti héraðsdómara hafði hún gegnt störfum dómarafulltrúa við Héraðsdóm Reykjavíkur á árunum 1994 til 1998 og framkvæmdastjóra dómstólaráðs árin 1998 til 2000. Hún sat í stjórn Dómarafélags Íslands árin 2012 til 2014 og hefur gegnt stöðu dósents við lagadeildir Háskóla Íslands og síðar Háskólans í Reykjavík. Nafn hennar rataði í fréttirnar árið 2010 þegar hún kvað upp fyrsta dóminn um ólögmæti gengistryggðra lána sem var staðfestur í Hæstarétti síðar á árinu, og einnig í vor þegar fjölmiðar fjölluðu um umsögn hennar til Alþingis um frumvarp til dómstólalaga. Stundin ræddi við Áslaugu og bað hana um að útskýra hvers vegna hún ákvað að láta af dómaraembætti í fyrra. Svar hennar fylgir hér að neðan:
Það er mikilvægt að geta verið stoltur af vinnustaðnum sínum. Eftir að hafa kynnst stjórnun og svo fjölmörgum misbrestum í starfsemi héraðsdómstólanna var staðan einfaldlega sú að ég sem borgari treysti ekki lengur dómskerfinu. Ég hef allt aðrar hugmyndir um metnað og fagleg vinnubrögð dómsvalds og deili hvorki ráðandi sýn né gildum innan dómskerfisins. Þegar stjórnendur beina dómurum í þveröfuga átt þá var það umhverfi sem ég gat ekki sætt mig við. Ég gat hvorki verið stolt af Héraðsdómi Reykjavíkur né stolt af því að vera dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Það er réttaröryggismál og grundvallarforsenda réttarríkisins að dómstólar fari að lögum í einu og öllu. Ef sú er ekki raunin geta borgarararnir, hvorki einstaklingar né fyrirtæki, treyst því að dómarar fari alltaf að lögum. Þess eru ítrekuð dæmi að stjórnendur íslenska dómsvaldsins telja að þeir eigi val um það hvort og hvaða lögum þeir fylgja með vísan til sjálfstæðis dómsvaldsins. Það var niðurstaðan að ég vildi ekki tilheyra slíku dómsvaldi.
Ef maður er hluti af kerfi finnst flestum, og það er gerð krafa um það, að maður þurfi að verja það gagnrýni. Það gat ég ekki. Ég gat ekki horft fram hjá þessum misbrestum og metnaðarleysi í starfsemi dómstólanna, þar sem konum er m.a. ætlað annað en körlum, og hvað þá ólögmætri stjórnsýslu dómstjóra og dómstólaráðs. Ég fór úr kerfinu til að geta með góðu móti gagnrýnt það og reyna að koma af stað umræðu um mikilvægi endurskoðunar til að tryggja réttaröryggi borgaranna.
Athugasemdir