Vaxandi þrýstingur er innan Sjálfstæðisflokksins á Ólöfu Nordal innanríkisráðherra að bjóða sig fram til varaformennsku í flokknum og ýta þannig Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, til hliðar. Heimildir Stundarinnar herma að stuðningsmenn Ólafar meti það svo að miklar líkur séu á því að hún bjóði sig fram. „Líkurnar eru yfirgnæfandi,“ sagði einn samherja hennar. Þungavigtarmaður innan Sjálfstæðisflokksins sagði augljóst að Ólöf væri að fara í slaginn. „Og hún mun vinna, það er augljóst. Hanna Birna er á stöðugu undanhaldi en Ólöf í stórsókn,“ segir hann.
Sjálf hefur Ólöf einungis sagt að hún þurfi að gera upp við sig hvort hún sækist eftir þingsæti á ný. Ólöf var varaformaður á árunum 2010 til 2013 en hætti á Alþingi í síðustu kosningum.
Á þriðjudagskvöld varð sá fáheyrði atburður að fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna á Seltjarnarnesi skoraði á Ólöfu að gefa kost á sér. Þar er afdráttarlaust lýst stuðningi við ráðherrann sem er utan þings. Tugir manna voru á fundinum. Tillaga formanns um áskorun á Ólöfu var einróma samþykkt.
„Fundurinn hvetur Ólöfu Nordal innanríkisráðherra til að gefa kost á sér til embættis varaformanns Sjálfstæðisflokksins á komandi landsfundi. Ólöf hefur sýnt það í störfum sínum nú sem fyrr að hún býr yfir krafti, áræðni og reynslu til forystustarfa á vegum Sjálfstæðisflokksins,“ segir í ályktun fundarins. Áður hafði Félag sjálfstæðismanna í Langholtshverfi sent frá sér sambærilega áskorun.
„Ólöf hefur sýnt og sannað að hún býr yfir krafti og áræðni til forystustarfa, hvort sem er á vettvangi Sjálfstæðisflokksins eða landsmálanna,“ segir í ályktun félagsins. Tekið er eftir því að orðalag stuðningsyfirlýsinganna er nauðalíkt. Þá er þess að vænta að fleiri félög sjálfstæðismanna taki af skarið og lýsi stuðningi við innanríkisráðherra. Í grasrót flokksins er uppreisn gegn Hönnu Birnu.
Þess utan hefur hópur forystumanna Sjálfstæðisflokksins á landsbyggðinni gefið út stuðningsyfirlýsingu við framboð Ólafar. Þá yfirlýsingu undirrita fjölmargir formenn Sjálfstæðisfélaga svo sem Sölvi Sólbergsson á Bolungarvík og Hafdís Gunnarsdóttir á Ísafirði. „Án þess að á nokkurn sé hallað teljum við Ólöfu vera hæfasta sjálfstæðismanninn á landinu öllu til að leiða flokkinn, ásamt Bjarna Benediktssyni formanni,“ segir í yfirlýsingu þeirra.
Þöglir þingmenn
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki viljað gefa opinberlega upp afstöðu sína til framboðs Ólafar. Þó er talið að hún njóti mikils stuðnings. Guðlaugur
Athugasemdir