Bræðurnir Kristján Snorri og Eyjólfur Vestmann Ingólfssynir hafa undanfarin ár lifað á ríkisstyrkjum sem stjórnmálasamtökin Flokkur heimilanna fær úr ríkissjóði. Flokkurinn var stofnaður af Séra Halldór Gunnarsson í Holti, en útvarpsfólkið Arnþrúður Karlsdóttir og Pétur Gunnlaugsson voru meðal þeirra sem fóru fram fyrir flokkinn. Var Pétur formaður, áður en bræðurnir yfirtóku flokkinn í kjölfar kosninga. Flokkurinn fékk um 3 prósent atkvæða sem þýðir að hann á rétt á 40 milljónum króna yfir núverandi kjörtímabil. Þetta kom fram í meiðyrðamáli Kristjáns Snorra gegn Pétri en aðalmeðferð fór fram í síðustu viku. Meint meiðyrði Péturs snúast um orð sem hann lét falla á Eyjunni en þar sagði hann að Kristján Snorri hefði ekki borgað skuldir flokksins en þess í stað farið á heimsmeistaramót í fótbolta í Brasilíu.
Í kjölfar alþingiskosninganna 2013 hefur Flokkur heimilanna fengið um 19 milljónir króna úr ríkissjóði. Bræðurnir Kristján Snorri og Eyjólfur Vestmann Ingólfssynir, sem með fjandsamlegri yfirtöku tóku yfir stjórn flokksins í kjölfar kosninganna, eru tveir af þremur stjórnarmönnum. Er Kristján formaður og hefur flokkurinn borgað einkafyrirtæki hans, Helstirni ehf., milljónir fyrir ráðgjafaþjónustu og húsaleigu. Eyjólfur, bróðir hans, fékk tæpar þrjár milljónir í afturvirk laun, og fær að auki 250 þúsund krónur í laun á mánuði sem framkvæmdarstjóri, þrátt fyrir að flokkurinn hafi ekkert starfað síðan í kosningunum 2013.
Athugasemdir