„Ég vorkenni fólki sem líður svona,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um neikvæðni fólks gagnvart atburðum ársins á Íslandi í áramótauppgjörsþættinum Kryddsíld á Stöð 2 í dag.
Bjarni sagði að það þyrfti „náttúrulega einhverja geðveiki til þess að sjá ekki hvað þetta er frábært land sem við búum á“.
Bjarni ræddi um árið og atburði þess í Kryddsíldinni og kvaðst vera ánægður með að þingið hefði samþykkt fjárlög hans, jafnvel þótt hann hefði ekki ríkisstjórnarmeirihluta. Hann grínaðist með að breyta mætti stjórnarskránni í þá átt að ekki þyrfti þingbundna stjórn þegar þingið virkaði svo vel. Allir væru ánægðir, enda væri Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn við stjórn. Formenn annara stjórnmálaflokka á Alþingi voru í þættinum, sem stýrt var af Loga Bergmanni Eiðssyni og Thelmu Tómasdóttur. Þátturinn einkenndist af gleði og var meðal annars tekið sameiginlegt hú-klapp.
„Það þarf náttúrulega einhverja geðveiki til þess að sjá ekki hvað þetta er frábært land sem við búum á,“ sagði Bjarni. „Hvað við búum í öruggu landi, friðsælu landi, lýðræðislegu landi þar sem menn boða til kosninga til þess að hleypa fólki að. Til þess að velja sér leiðtoga þegar ákall kemur um það og rís upp. Land þar sem langlífi er mest í heiminum, kaupmáttur hefur vaxið, allir hafa atvinnu, lífsgæði á nánast hvaða mælikvarða sem er eru há.“
Bjarni greip þannig til orða um þá sem eru ósáttir við atburði og ástandið á Íslandi á árinu eftir að uppistandarinn og lögfræðingurinn Bergur Ebbi Benediktsson fór yfir atburði ársins á heimsvísu í pistli sem sýndur var í Kryddsíldinni.
Gagnrýndi firringu á árinu
Bergur Ebbi ræddi kjör Donalds Trump, ákvörðun Breta að ganga úr Evrópusambandinu, Brúneggjamálið og hvernig Ísland vakti heimsathygli fyrir hversu margir stjórnmálamenn í landinu reyndust eiga aflandsfélög, og svo viðbrögð eða skort á viðbrögðum við því. Hann ályktaði hann að árið hefði einkennst af ákveðinni firringu. „Kannski var 2016 ár geðveikinnar,“ sagði hann í því samhengi.
Hann gagnrýndi einnig Bjarna Benediktsson. „Svo má ekki gleyma að Bjarni Benediktsson tók sinn gagnalekaskandal á cruise control, enda öllu vanur, og bauð upp á Panamatvist með viðkomu í Lúxemborg og Seychelles eyjum fyrir ströndum Afríku, en virðist koma nokkuð óskaddaður frá þeirri sjóferð.“
Bjarni svaraði því til að hann vorkenndi slíku fólki. „Að taka árið saman og segja þetta er nú geðveikt ár og hér er allt rotið og spillt og merki um það miðað við þá atburði sem gerðust á þessu ári að við erum bara sökkvandi skip sem að verður ekki viðbjargað. Þetta er ákveðin lífssýn, en ég vorkenni fólki sem líður svona.“
Athugasemdir