„Frelsið Jacqueline!“ öskruðu kvenraddir í fjarska, kæfðar og móðar. „Liberté a Jacqueline!“ Þær stóðu berar að ofan fyrir utan þriggja metra hátt grindverk sem umlykur dómsmálaráðuneytið í París – Réttlætishöllina, Palais de Justice. Þungvopnaðir lögreglumenn héldu þeim að rimlunum og lögðu fangabílum í kring. Þeir báðu áhorfendur að halda sig frá. Í seilingarfjarlægð gekk forviða fólk inn og út um hlið ráðuneytisins, á leið heim eftir síðasta vinnudag vikunnar.
Réttlætishöllin á sér dramatíska sögu. Hún hýsti áður dómstól byltingarinnar, sem á tíu mánuðum árin 1793–4 dæmdi þúsundir manna til dauða eða sýknu – einu úrskurðirnir sem dómstóllinn felldi. Í litlu herbergi þessa Disney-líka kastala, með útsýni yfir Signufljót, beið Marie Antoinette Frakklandsdrottning dauða síns. Hárið var skorið af henni og hún skipti um föt fyrir framan fangaverðina. Svo var hún bundin með reipi og henni ekið klukkutíma leið á opinni hestakerru út á Byltingartorg, þar sem hausinn var klipptur af …
Athugasemdir