Murtadha Ali Hussain kom til Íslands fyrir tveimur og hálfum mánuði í kjölfar þess að hafa verið synjað um hæli í Noregi. Murtadha er frá Írak, nánar tiltekið frá borginni Hilla, þar sem hefur ríkt óstöðugt ástand í mörg ár. Mál hans var ekki tekið fyrir hér á landi á grundvelli Dyflinnarsamkomulagsins, sem veitir ríkjum heimild til að synja að taka hælisumsókn til meðferðar og senda hælisleitendur aftur til baka til annarra landa, þar sem frekar er talið að fjalla eigi um umsóknir þeirra.
Murtadha kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála. Áður en kærunefndin tók málið til athugunar bárust Murtadha líflátshótanir frá Noregi. Þann 12. desember fékk hann skilaboð frá vini sínum, um að þrír menn höfðu komið í flóttamannabúðirnar þar sem hann dvaldi í leit að honum. Þeir hafi sýnt ógnandi tilburði. Skömmu síðar fékk hann Whatsapp-skilaboð úr óþekktu númeri. Þau voru ógnandi: „Ég finn þig, hvar sem þú verður. Ég mun hálshöggva þig.“
Murtadha segir að mennirnir hafi verið á vegum íraskra manna sem hann flúði undan á sínum tíma. Murtadha er frá borginni Hilla í Írak, þar sem ástand er óstöðugt, en mennirnir tilheyra að hans sögn uppreisnarhópum þar og séu hættulegir. Frændi Murtadha, Ali, átti í viðskiptasambandi við þá. Þeir myrtu Ali til að komast yfir hans hluta viðskiptanna. Barnungur sonur Alis, sem er fimm ára, erfði pabba sinn og Murtadha var settur fjárhaldsmaður hans fram til átján ára aldurs. Mennirnir kröfðust þess að hann afsalaði sér þeirri ábyrgð til þeirra og hótuðu honum lífláti ef hann hlýddi ekki. Murtadha neitaði og flúði til að bjarga lífi sínu.
Murtadha tilkynnti talsmanni sínum hjá Rauða krossinum um hótanirnar sem kom þeim áleiðis til kærunefndar útlendingamála. Nefndin tók ekki tillit til þeirra. Hvergi er minnst á þær í úrskurði nefndarinnar, þar sem fram kemur að Murtadha skuli snúið aftur til Noregs. „Ég hélt að þeir myndu endurskoða ákvörðun sína á grundvelli þessara hótana en þeir gerðu það ekki. Ég skil ekki af hverju,“ segir hann og segist ekki vita hvað hann eigi til bragðs að taka nú.
Nú, þegar kærunefndin hefur birt úrskurð sinn, er málinu formlega lokið innan stjórnsýslunnar. Það þýðir að aðkomu Rauða krossins að málinu er einnig lokið og að Murtadha hafi tvo kosti í stöðunni: að sætta sig við úrskurðinn eða finna sér lögmann sem er reiðubúinn að láta á það reyna að fara með mál hans fyrir dómstóla. Hann hefur leitað til nokkurra lögmanna en enginn hefur fengist til að taka málið að sér. Murtadha er því ráðalaus og á ekki von á öðru en að vera sendur til baka til Noregs og þaðan til Írak. Murtadha skelfur lítillega á meðan hann segir sögu sína. Spurður um líðan sína segist honum líða illa, vera hræddur og stressaður. Hann segir líðanina ná til líkamans, hann sé til dæmis farinn að missa hárið. Svo rennir hann höndinni í gegnum það og sýnir á sér lófann, þakinn hárum.
Athugasemdir